Skemmtileg innslög af ströndum

Kristín Einarsdóttir, þjóðfræðingur, hefur frá haustinu 2016 verið með innslög í Mannlega þættinum á Rás 1 alla þriðjudaga um lífið á Ströndum. Kristín tekur fróðleg og skemmtileg viðtöl við fólk á svæðinu um fjölbreytt efni svo sem þjóðsögur, kræklingaveiðar, strandveiðar, mannlífið, menninguna, íþróttir, þorrablót, bæjarhátíðir og svo mætti lengi telja.

En hvernig byrjaði þetta? „Ég er búin að vinna fyrir útvarpið frá svona 1994-5 og alltaf verið að gera öðru hvoru þætti um ýmis efni, til dæmis túlkanir á íslenskum dægurlögum, húmor, siði og allskonar. Svo bara kom þessi hugmynd einhvern veginn til mín þegar ég var að flytja hingað á Strandir, að gera stutt innslög héðan“, segir Kristín.

Innslögin hafa verið hluti af þáttunum síðan 2016 og eru því að verða hátt í 70 talsins og segir hún að af nógu sé að taka: „Það eru margir sem halda að ég hljóti að fara að verða búin með efnið. Það sé bara ekki meira að hafa. En mér finnst að eftir því sem ég er lengur í þessu þá kemur meira efni til mín. Ég kynnist betur svæðinu og fólkinu hérna. Ég dáist svo að þessu fólki, hvað þau eru til í að koma í viðtöl. Það eru eiginlega allir sem eru til í að koma og tala. Ég man fyrst þegar ég fór sjálf í viðtal var ég að drepast úr stressi, en þetta fólk hérna það er bara til í þetta“, segir Kristín hress.

Nú stendur til að setja upp heimasíðu: hveravik.is þar sem hægt verður að nálgast öll viðtölin en þar verður hægt að fletta þeim upp bæði eftir viðmælendum og efni. Kristín segir að það sé ótrúlega mikið hlustað á þáttinn og mikill áhugi á Ströndum.

Kristín er mjög ánægð með lífið á Ströndum en hún hafði enga tengingu þangað áður en hún flutti. „Mér finnst það svo 100% algjörlega frábært. Ég hef ekki séð eftir því í 20 sekúndur að flytja hingað. Mér finnst ótrúlega gott fólk hérna, mér finnst þetta vera gott samfélag og fólk hjálpsamt. Svo er bara ofboðslega fallegt, mér finnst það gjörsamlega frábært“ segir Kristín að lokum.

Dagrún Ósk

dagrun@bb.is

DEILA