Nýtum tækifærin rétt – Í þágu bæjarbúa!

Hafdís Gunnarsdóttir.

Þær eru þrjár ástæðurnar fyrir því að ég er að hella mér út í bæjarpólitíkina. Sú fyrsta er að við stöndum frammi fyrir gífurlegum tækifærum í Ísafjarðarbæ og við eigum að gera allt sem við getum til að grípa þau. Ég er meira en tilbúin í slíka vinnu. Önnur ástæðan er að bæjarmálin eru afskaplega áhugaverð að mínu mati. Ég vil sjá bæjarfulltrúa vinna meira eins og stjórn í fyrirtæki, þar sem málin eru rökrædd á bæjarstjórnarfundum og að lokum komist allir að einhverri sameiginlegri niðurstöðu sem er óháð pólitískum línum. Niðurstaða þar sem enginn fær allt, en allir fá eitthvað. Ákvarðanir á ekki að taka á meirihlutafundum. Sú þriðja er að ég vil að börnin mín, skólafélagar þeirra og öll önnur börn í Ísafjarðarbæ búi við frábærar aðstæður. Hvort sem það er aðbúnaður í skólunum, við íþrótta- og tómstundaiðkun eða í umhverfinu sínu. Ég vil að þau séu stolt af því að búa í Ísafjarðarbæ.

Fjölnota íþróttahús forgangsverkefni

Og hvernig vil ég gera þetta? Það er alveg ljóst að nýtt fjölnota íþróttahús á að vera forgangsverkefni okkar enda kominn tími til að bjóða krökkunum okkar upp á aðstöðu sem þeir geta verið stoltir af. Hefjum svo akstur frístundarútu milli byggðarkjarnanna svo öll börn í sveitarfélaginu geti nýtt sér aðstöðuna. Fyrst og fremst vil ég byrja á að skipuleggja uppbyggingu á Torfnesi þar sem ákveðið verður hver framtíðarsýn okkar er fyrir svæðið. Það er grundvallaratriði áður en uppbygging hefst. Þá getum við ákveðið hvar sundlaugin og útipottarnir eiga að vera í framtíðinni og nýtt samlegðaráhrif sem mest. Þetta eru jú peningar bæjarbúa sem hér er sýslað með og því verður að vanda til verks. Við eigum alls ekki að vera hrædd við að horfa 20-30 ár fram í tímann því þannig vitum við allavega hvert við stefnum.

Öflug barátta fyrir fiskeldi

Berjumst fyrir uppbyggingu sjálfbærs fiskeldis í Ísafjarðarbæ. Ég vil fara í markvissa baráttu fyrir þessari atvinnuuppbyggingu ásamt öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum. Sérfræðingar og vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að ala á Vestfjörðum a.m.k. 50 þúsund tonn á ári með lítilli áhættu. Jafnframt hefur verið sýnt fram á hvernig hægt er að hefja fiskeldi í Ísafjarðardjúpi innan skamms. Bara fyrir norðanverða Vestfirði erum við að tala um 500 afleidd störf. Þetta myndi gjörbreyta öllu fyrir okkur hér í Ísafjarðarbæ, ekki bara í Skutulsfirði heldur í öllum byggðarkjörnunum. Aukin atvinnutækifæri, meiri verðmætasköpun og fjölgun íbúa. Við höfnum ekki slíku tækifæri.

Dagvistun fyrir öll 12 mánaða börn

Dagvistun fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri er lykilatriði svo að Ísafjarðarbær verði eftirsóknarverður búsetukostur. Svo er þetta líka stórt jafnréttismál. Með því að hefja dagvistun fyrir börn frá 12 mánaða aldri værum við að koma til móts við þarfir foreldra og vinnuveitenda í sveitarfélaginu. Ísafjarðarbær er þjónustufyrirtæki og myndi það skipta öllu máli fyrir foreldra ef gefið yrði út með fyrirvara hvenær barn getur hafið leikskólagöngu sína.

Betri samgöngur og aukin samskipti milli byggðarkjarna

Síðast en alls ekki síst vil ég fara í markvissa vinnu sem stuðlar að samræmingu byggðarkjarnanna í sveitarfélaginu. Þó við stöndum oft saman í stórum málum þá höfum við ekki náð að gera sveitarfélagið að einni heild. Það er þarna gjá sem þarf að brúa og eru ýmsar leiðir færar til þess. Áðurnefnd frístundarúta myndi gera börnum úr öllu sveitarfélaginu kleift að æfa saman íþróttir án þess að þurfa hanga í margar klukkustundir fyrir og eftir æfingu. Ísafjarðarbær getur boðið upp á reglulega viðtalstíma í minni byggðarkjörnum hjá starfsmönnum bæjarins eða jafnvel ráðið íbúa á staðnum í ákveðin verkefni sem bærinn á að sinna. Starfsmenn á staðnum hafa betri tilfinningu fyrir svæðinu og því sem þarf að gera á hverjum stað. Klárum svo að leggja gangstéttir í minni byggðarkjörnunum svo sómi sé að.

Íbúarnir gera bæinn betri

Þegar talað er um öll þessi tækifæri, stoltið og allt það góða sem er að gerast í sveitarfélaginu okkar þá er stjórnmálamönnum oft hrósað fyrir slíkt eða þeir hrósa sér jafnvel sjálfir. Það eru hins vegar íbúarnir sem eiga allt hrós skilið því það eru þeir sem skapa hér stemninguna, keyra áfram bæjarhátíðir, tónleika, listviðburði og íþróttamót. Þeir stofna hér bæði lítil og stór fyrirtæki. Þeir eru afreksíþróttamennirnir, öfluga listafólkið og tónlistarfólkið sem allir eru að rifna úr stolti af. Það má segja að íbúarnir séu fræin, blómin og sprotarnir og er það hlutverk okkar stjórnmálamanna að undirbúa jarðvegin vel til að hjálpa þessum plöntum að vaxa. Ef jarðvegurinn er frjór þá vilja fólk og fyrirtæki flytja hingað. Þar liggja okkar stærstu tækifæri.

Hafdís Gunnarsdóttir, skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ

 

 

DEILA