Metaðsókn í Musterið um páskana

Mikil ánægja var með samflotið í Musterinu.

Metaðsókn var í Sundlaug Bolungarvíkur um páskana, en alls nutu tæplega tvö þúsund manns lífsins í Musteri vatns og vellíðunar í Bolungarvík. Gunnar Hallsson, forstöðumaður sundlaugarinnar, er að vonum mjög ánægður með aðsóknina um páskana og segir að mikil gleði og ánægja hafi ríkt hjá gestum Musterisins þrátt fyrir að oft hafi verið þröngt á þingi.

Það mæltist mjög vel fyrir að alla páskana var boðið upp á tónlistarflutning þar sem tónar hljómuðu undir vatnsborði sundlaugarinnar og að sögn Gunnars var mest umbeðna óskalag páskanna „Kúst og fæjó“ sem virtist hljóma vel í vatninu. Þá var samflot í boði á bæði skírdag og páskadag og var mjög góð mæting báða dagana.

Musteri vatns og vellíðunar stóð fyrir páskaeggjaleik þar sem spurt var hvort rétt væri að skrifa „Bolungavík“ eða „Bolungarvík“ og tóku um 400 manns þátt í leiknum. Það var Saga Matthildur Árnadóttir sem var dregin út sem sigurvegari og hlaut að launum veglegt páskaegg. Skemmst er frá því að segja að það höfðu allir rétt fyrir sér sem tóku þátt í leiknum en það er bæði rétt að skrifa „Bolungavík“ og „Bolungarvík“.

Baldur Smári

DEILA