Merktu gönguleiðir í Önundarfirði

Hólsdalir.

Ef fólk skyldi vera að leita að nafni sveitabæjar í Önundarfirði, þá getur það auðveldlega gert því skóna að bærinn heiti Kirkjuból. Það eru nefnilega töluvert mörg býli í firðinum sem bera það nafn. Eitt þessara Kirkjubóla stendur í Korpudal og þar er rekin ferðaþjónusta á sumrin með gistingu, tjaldsvæði og gífurlega fallegum sal fyrir ýmsa viðburði. Feðgunum Stefáni og Páli, sem reka ferðaþjónustuna, langaði að bæta einhverju við og ákváðu þess vegna að merkja gönguleiðir í nágrenni Kirkjubóls sem ferðafólk gæti nýtt sér. „Við komum hérna nokkrir saman í haust, ég, pabbi, Helgi Páls og Siggi Kristjáns og gengum þessar fimm gönguleiðir sem við merktum,“ segir Stefán í samtali við BB. Gönguleiðirnar eru miserfiðar og liggja meðal annars upp í skálarnar fyrir ofan Kirkjuból annarsvegar og Betaníu hinsvegar, ein liggur upp Korpudalinn og hringinn í kringum Hestfjall, önnur upp Tunguhornið og niður Öxlina og Ekkilsdal fyrir ofan bæinn Hól í Firði og sú síðasta liggur um Hólsdalina fjóra.

„Það sem við gerðum þegar við vorum að ganga þessar leiðir var að nota appið Wikiloc, en þá er bara að ýta á upptöku og labba af stað og forritið skráir gps hnitin. Þegar við komum að áhugaverðum svæðum þá tókum við mynd af þeim, sem verða svokallaðir Waypoint í forritinu.“ Þessa Waypoint mætti líka kalla vegvísa og þangað inn færði Stefán líka ýmsar sögur og fróðleik úr firðinum. „Það var hellings heimildavinna sem ég lá í frá hausti og fram að jólum þar sem ég var að lesa allt um bæina hérna í kring,“ segir Stefán. „Þetta var svona uppljómun fyrir mig að fara í þessa heimildavinnu því svæðið fékk miklu meira líf í huga mínum. Það væri líka gaman að safna saman myndum af bæjunum frá í gamla daga og setja á skilti hjá þeim. En það kemur í ljós hvað við höldum áfram með þetta,“ segir Stefán.

Stefán hætti ekki forritavinnunni þarna heldur var allt heila klabbið sett upp í íslenska forritinu wapp.is. Þar er hægt að þysja inn á Önundarfjörð á Íslandskortinu og sjá gönguleiðarnar sem þeir bjuggu til og upplýsingar og fróðleik á bæði íslensku og ensku. Feðgarnir á Kirkjubóli eru sem stendur að vinna í því að skipta um glugga á gistiheimilinu og færa það nær upprunalegu útliti. „Við lágum yfir gömlum myndum af húsinu og pöntuðum svokallaða bondegardsglugga frá Danmörku. Þetta er að verða rosalega flott og mikil upplyfting á húsinu,“ segir Stefán að lokum að opnað verður fyrir gistingu hjá þeim þann 20. maí.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA