Meistaraprófsvörn um vistfræðileg áhrif flundru

Mynd: Theresa Henke. Mynd fengin af heimasíðu Háskólaseturs Vestfjarða.

Theresa Henke skrifaði meistaraprófsritgerð í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða um vistfræðileg áhrif flundru á uppvaxtarsvæði skarkolaseiða. Mánudaginn 30. apríl kl. 12:30 mun Theresa verja ritgerð sína. Leiðbeinandi hennar í ritgerðinni var dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og prófdómari verður dr. Camille LeBlanc, lektor við Háskólann á Hólum.

Útdráttur úr ritgerðinni hljómar svo: „Á síðustu árum hefur flutningur tegunda út fyrir náttúruleg heimkynni aukist mjög. Margvíslegt rask á búsvæðum sem og loftslagsbreytingar auka líkur á útbreiðslu þessara framandi tegunda í nýjum heimkynnum. Árið 1999, fannst flundra (Platichthys flesus), flatfiskur með náttúrulega dreifingu við strendur mið Evrópu, við Ölfusárósa. Flundran hefur síðan dreifst víða um land. Í þessu verkefni eru rannsökuð möguleg áhrif flundruseiða á seiði skarkola (Pleuronectes platessa) á uppeldisstöðvum. Sýnataka fór að mestu fram á tveimur svæðum sem endurspegla eldra og nýlegra landnám flundrunar; í Borgarfirði og í Önundarfirði. Seiði voru veidd með landnót frá júlí og fram í september 2017. Tegundasamsetning á hverjum stað var metin, lengd seiðanna mæld og þau vigtuð og magainnihald greint til að ákvarða vistbreidd tegundanna og skörun í fæðuvist. Flundra veiddist við alla sýnatöku en bæði tegundasamsetning og stærð seiða beggja tegunda var breytileg eftir svæðum og tíma. Marktæk skörun í fæðuvist var á milli flundru og skarkola seiða, mest áberandi á milli 1+ flundru og 0+ skarkola. Þá kom í ljós að 1+ flundruseiði eru afræningjar á 0+ skarkolaseiði. Það er því talið líklegt að tilkoma flundru hafi neikvæð vistfræðileg áhrif á skarkola á uppeldisstöðvum. Það komu hinsvegar ekki fram sterkar vísbendingar um mun á milli svæða eftir tíma frá landnámi flundrunnar. Niðurstöður þessa verkefnis sýna að það er mikilvægt að og hefja virka stýringu ágengra tegunda við Ísland m.a. með því að greina helstu flutningsleiðir, bæta snemmtæka greiningu framandi tegunda og þróa viðbragðsáætlun.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA