Líflegt tónlistarlíf í Vesturbyggð

Tónlistarskóli Vesturbyggðar er starfræktur bæði á Patreksfirði og á Bíldudal.

Það hefur ekki farið svo hátt á BB að undanförnu hversu líflegt tónlistarlífið er í Vesturbyggð og hve öflugur tónlistarskólinn þar er. Við skólann starfa fjórir kennarar, þau Helga Gísladóttir sem kennir á píanó, Marte Strandbakken sem kennir í forskólanum og svo bæði á píanó og söng, Jón Hilmar Kárason, sem vílar ekki fyrir sér að kenna á gítar í fjarkennslu og skólastjórinn hann Einar Bragi Bragason kennir svo á flest þau hljóðfæri sem eftir eru, nema kannski fiðlu og selló. Að auki starfar lítil lúðrasveit við skólann en heildar nemendafjöldinn þar telur 84 nemendur. Þar af eru 13 í svokölluðu Tónföndri eða forskólanámi sem fer fram á leikskólanum á Patreksfirði.

Tónlistarskóli Vesturbyggðar er starfræktur á Patreksfirði og á Bíldudal. Skólinn fagnar 50 ára afmæli í ár og Einar Bragi, skólastjóri, sagði í samtali við BB að vortónleikarnir yrðu þess vegna mjög veglegir og góðir gestir kæmu að, til að spila með nemendum. Það verður spennandi að sjá hvaða gestir þetta eru og greinilegt að tónlistarnemendur eru í góðum höndum í Vesturbyggð.

 

 

 

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA