Leðurblakan leggur í langferð

Óperettan Leðurblakan verður sýnd á Ísafirði 23. apríl.

Mánudaginn 23. apríl næstkomandi kl. 19:30, mun Nemendaópera Söngskólans í Reykjavík koma til Ísafjarðar með uppsetningu á óperettunni Leðurblökunni eftir Johann Strauss II. Í tilkynningu frá Tónlistarskóla Ísafjarðar kemur fram að Leðurblakan verði sýnd í samvinnu við skólann, en heimamenn taka þátt í sýningunni. Má þar nefna félaga úr Sunnukórnum, félaga úr Leikfélagi MÍ, nemendur úr Tónlistarskóla Bolungarvíkur og nemendur söngdeildar Tónlistarskóla Ísafjarðar. 

Í tilkynningunni kemur fram að óperettan sé hnyttin og lífleg. Persónusköpunin er sterk og tónlistin yfirfull af fallegum melódíum. Sögusvið óperettunnar er Vínarborg um áramótin 1874-1875. Það er á allra vörum og í öllum blöðum að Eisenstein sé á leiðinni í fangelsi. Fyrsti þátturinn gerist heima hjá þeim hjónum Eisenstein og Rosalinde. Annar þátturinn er veisla heima hjá rússneskum prinsi, þar sem Eisenstein fellur fyrir Adele. Þriðji og síðasti þátturinn gerist í fangelsinu, þar sem framhjáhaldið kemur í ljós.  

Nemendaópera Söngskólans setur árlega upp sýningar og hefur undanfarið ferðast um landið með nokkrar þeirra. Í fyrra heimsóttu þau Tónlistarskóla Ísafjarðar í fyrsta skipti og sýndu Töfraflautuna í Edinborgarhúsinu. Þar tóku nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar og kórafólk af svæðinu þátt og var samstarfið ákaflega vel heppnað. Það er lærdómsríkt og hvetjandi fyrir söngfólk og nemendur að fá tækifæri til þess að kynnast því sem fylgir því að setja upp sýningar af þessu tagi og vonir eru bundnar við að samstarf skólanna styrkist áfram og verði farsælt á komandi árum.

Stjórnandi er Garðar Cortes, skólastjóri Söngskólans í Reykjavík en leikstjórn er í höndum Sibylle Köll. Tónlistarstjóri sýningarinnar er Hrönn Þráinsdóttir.

Hér gefst kærkomið tækifæri til að sjá óperettu í heimabyggð en hægt er að panta miða á midi.is eða kaupa miða við innganginn. Miðaverð er  kr.3500, börn 7-12 ára fá helmings afslátt, skólafólk kr. 2500 og börn undir 7 ára fá frítt.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA