Kvenfélagið Brynja 100 ára

Allir sem vettlingi geta valdið eru velkomnir á Flateyri á laugardaginn.

Þegar kvenfélagið Brynja á Flateyri var stofnað 3. mars 1918 var áreiðanlega ekki vor í lofti — hvorki í eiginlegri merkingu orðsins né óeiginlegri. Frá áramótum hafði Önundarfjörðurinn verið ísi lagður og úti í heimi geisaði ægileg heimstyrjöld. Þótt við Íslendingar ættum ekki beina aðild að henni hafði hún óbein áhrif – siglingar komu í veg fyrir að eldsneyti bærist til okkar og vöruskortur gerði vart við sig. Konurnar 33 sem sátu stofnfund félagsins sýndu að þrátt fyrir erfið ytri skilyrði getur innra með fólki eflst kraftur og trú á að sé hægt að breyta ýmsu til hins betra ef margir leggjast á eitt.

Félagsstörf fyrr og nú

Íbúum á Flateyri hefur nú á aldarafmæli félagsins fækkað og þar með félagskonum í kvenfélaginu Brynju en þátttaka kvenfélagskvenna á fundum og virkni í starfi er og hefur verið ákaflega góð þótt önnur félagastarfsemi hafi átt erfitt uppdráttar á undanförnum árum. Á árunum eitthundrað hafa verið haldnir tæplega sjöhundruð félagsfundir

Kvenfélagið Brynja starfar samkvæmt lögum félagsins sem endurskoðuð eru árlega ef þurfa þykir eða með reglulegu millibili.
Markmið kvenfélagsins Brynju eru aðeins tvö. Þau er að finna í 2. grein félagslaganna: Markmiðin eru: að efla mannúð og að styðja að framfaramálum.

Á tímamótum eins og á aldarafmæli er eðlilegt að horft sé um öxl og skoðað hvort kvenfélagið Brynja hafi verið markmiðum sínum trútt — hvort starfað hafi verið í þeim anda sem lög félagsins gera ráð fyrir. Félagskonur hafa flett fundargjörðabókunum sem geyma sögu félagsins og hafa við lesturinn fundið vel hve verkefni félagsins hafa verið mörg og margvísleg og hafa án efa verið samfélaginu á Flateyri til góðs. Þessi staðreynd ætti að veita félagskonum kjark og þor til að takast á við ný verkefni sem tilheyra nýjum tíma.
Þegar lesið er um fundi í gjörðabókunum kemur í ljós að konur hafa frá upphafi reynt að gera sér dagamun á fundum félagsins. Þær hafa sungið, leikið á hljóðfæri, lesið sögur og ljóð, leikið stutt leikatriði o.fl. einkum fyrr á árum en þá voru færri tilboð um afþreyingu en nú og hafa konur því gripið tækifærið sem gafst á fundum til að skemmta hver annarri til viðbótar við almenn fundarstörf.

Hér verða nú rakin nokkur meginverkefni sem Kvenfélagið Brynja hefur beitt sér fyrir frá stofnun félagsins 1918, en auk þeirra hefur félagið lagt ótal öðrum málum lið – bæði á Flateyri og reyndar einnig í hinu stærra samfélagi. Má þar nefna ýmsar safnanir og styrki til samtaka sem vinna að heill þeirra sem standa höllum fæti í lífinu af einhverjum ástæðum.

Helstu verkefni kv. Brynju frá stofnun félagsins 1918:

Starfið – Fjáröflun

Frá upphafi hafa félagskonur í kvenfélaginu Brynju lagt fram krafta sína án endurgjalds til þess að hrinda í framkvæmd hinum ýmsu málum sem samþykkt voru á félagsfundum að vinna að, en félagið hefur líka aflað fjár til verkefnanna með öðrum hætti og þá leitað til almennings eftir ýmsum leiðum. Árum saman tók kvenfélagið þátt í sameiginlegum bazar fyrir jólin með öðrum félögum í Önundarfirði en nú hefur bazarnum verið hætt. Einnig var sala heillaskeyta og blómasala stunduð um árabil en hefur nú verið lögð niður. Árið 2003 gaf félagið út matreiðslubók með uppskriftum frá félagskonum. Hin síðari ár hefur fjáröflun að mestu verið bundin við nokkra fasta árvissa liði svo sem með sólarkaffisölu í janúar, með páskabingói á laugadaginn fyrir páska, með kaffisölu á sjómannadaginn og með því að taka að sér erfidrykkjur.

Allar tekjur sem kvenfélagið hefur af ofangreindu renna beint til mannúðar- og framfaramála en tekjur sem kvenfélagið hefur af beinni sölustarfsemi svo sem pönnukökusölu á sumardaginn fyrsta og föstum hluta af útleigu Brynjukots renna í sérstakan ferðasjóð. Þrisvar hafa félagskonur farið í utanlandsferðir með styrk úr sjóðnum til Barcelona árið 2005, til Glasgow árið 2012 og til Edinborgar árið 2016. Einnig hefur verið farið í aðventuferð til Reykjavíkur/Hafnarfjarðar og í nokkrar skemmtiferðir til nágrannabyggðarlaga.

Kvenfélagskonur í Brynju hafa árlega setið fundi Sambands vestfirskra kvenna og haldið slíka fundi bæði eitt og sér eða með kvenfélagi Mosvallahrepps en starfið hefur þó fyrst og fremst falist í þátttöku í hinum sjö árlegum fundum félagsins og í hinum ýmsu starfsnefndum sem kosnar eru á haustfundi eða eftir þörfum.

„Barnaballið“

Segja má að það hafi einmitt verið jólaskemmtun fyrir börn á Flateyri sem varð til þess að kvenfélagið Brynja varð stofnað því það var á slíkri samkomu sem hugmyndin fæddist og varð að veruleika nokkrum mánuðum síðar eða þ. 3. mars 1918.
Í sjötíu ár sáu konurnar í kvenfélaginu Brynju um að öll börnin á Flateyri ættu þess kost að ganga í kring um jólatré, fá eitthvað sætt í munninn og skemmta sér saman við leik og söng um jólaleytið.

Í fundargjörðabókum kvenfélagsins Brynju kemur fram hve mikla vinnu konurnar inntu af hendi við að gera þessa árlegu barnaskemmtun eins ánægjulega og framast væri unnt. Þar kemur fram að þar sem erfitt gat reynst að fá lifandi grenitré var stundum gripið til þess ráðs að frysta grenitré í íshúsinu og geyma jólatré frosið milli ára!
Þótt Bynjukonur sjái ekki lengur um árlega jólatréskemmtun hefur siðurinn haldist.

Maríusjóðurinn – Sjúkraskýlið

Á öðrum fundi kvenfélagsins Brynju árið 1918 var samþykkt að ákveðinn hundraðshluti af tekjum félagsins skyldi renna til Minningarsjóðs um Maríu Össurardóttur —Maríusjóðsins, en konur í Önundarfirði á árinu 1915 stofnað þennan sjóð til minningar um Maríu, sem hafði reynst sjúkum á Flateyri vel, hjúkrað og annast um þá sem áttu um sárt að binda vegna sjúkdóma. Árlegt framlag kvenfélagsins Brynju og minningargjafir sem runnið hafa til sjóðsins hafa gert það kleift að styrkja ýmiss mál af þessu tagi – nú hin síðari ár aðallega með kaupum á tækjum til afnota fyrir lækni og hjúkrunarfólk í störfum sínum og til tækjakaupa á Ísafirði.
Minningarspjöldin afgreiðir Jóhanna Kristjánsdóttir s. 4567626
Kvenfélagið Brynja hefur lagt sjúkum í byggðarlaginu lið allt frá upphafi bæði í gegnum árleg framlög sín til Maríusjóðsins og með beinum stuðningi og gjöfum til sjúkraskýlisins sem starfrækt var um árabil Flateyri, til Öldrunarstofnunarinnar Sólborg sem starfaði á Flateyri frá 1981 til 2013 og til Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar.

 

Flateyrarkirkja

Á fundi í kvenfélaginu Brynju þ. 7. október árið 1926
kom frá einni félagskonunni, Guðrúnu Snæbjörnsdóttur, fram svohljóðandi tillaga:
„Kvenfélagið Brynja hafi forgöngu á því að reist verði kirkja í kauptúninu“.
Tillagan var samþykkt og kosin nefnd til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.
Á næstu árum störfuðu kvenfélagskonur ötullega að málinu og við vígslu kirkjunnar á árinu 1936 færði kvenfélagið kirkjunni ýmsar gjafir. Á árunum sem liðin eru frá vígslu Flateyrarkirkju hefur kvenfélagið Brynja lagt ýmislegt til kirkjunnar.

Leiksýningar – Samkomuhúsið

Á fyrstu áratugum starfseminnar voru leiksýningar af mögum leiðum kvenfélagsins Brynju til að afla fjár til hinna ýmsu framfara- og mannúðarmála sem félagið beitti sér fyrir, en um leið átti kvenfélagið sinn þátt í að efla félags- og menningarlífið á Flateyri. Ásamt verkalýðsfélaginu Skildi og íþróttafélaginu Gretti stóð kvenfélagið Brynja að byggingu samkomuhússins við Grundarstíg. Félögin ráku húsið í mörg ár en færðu um síðir Flateyrarhreppi húsið að gjöf.
Áður en Leikfélag Flateyrar var stofnað árið 1963 hafði kvenfélagið Brynja sett á svið ótal leikrit, stundum á eigin vegum, en stundum í samvinnu fleiri félaga. Á myndinni er einn leikhópurinn í búningum og með viðeigandi farða!

Garðrækt – Kvenfélagsgarðurinn

Sú hugmynd að kvenfélagskonur gerðu garðrækt að verkefni sínu kom fyrst fram á fundi í félaginu í apríl á árinu 1932. Strax á næsta ári var garður kvenfélagsins orðinn að veruleika og sannaði „kvenfélagsgarðurinn“ árum og áratugum saman að mögulegt væri að rækta matjurtir, blóm og tré á eyrinni þrátt fyrir erfið ræktunarskilyrði. Því miður sjást engar leifar kvenfélagsgarðsins nú, en hann stóð vestan við kirkjugarðinn þar sem nú standa íbúðarblokkir.

Námskeið

Kvenfélagið Brynja hefur í gegnum árin haft forgöngu um margskonar námskeiðahald.
Saumanámskeið- vefnaðarnámseið – matreiðslunámskeið-föndurnámskeið- bútasaumsnámskeið- leðurvinnunámskeið hafa verið haldin
Á myndinni eru konur á saumanámskeiði í samkomuhúsinu, líklega 1946 eða 1947. Líklega hafa saumanámskeiðin sem haldin voru árlega á árunum þegar erfitt var að kaupa tilbúnar flíkur notið mestra vinsælda. Af skýrslum má sjá hve gífurlega miklu konur komu í verk á þessum námskeiðum.

Barnaleikvöllur – Brynjubær

Kvenfélagið Brynja sendi hreppsnefnd Flateyrarhrepps bréf þ. 9. nóv. 1958 þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:
„Eins og hreppsnefnd Flateyrarhrepps er kunnugt hefur kvenfélagið Brynja mikinn áhuga á að koma upp leikvelli fyrir börn í þorpinu. Var ákveðið á októberfundi félagsins að leita að nýju álits hreppsnefndarinnar á því hvar kvenfélagið mundi fá svæði fyrir leikvöll þennan ef til kæmi“.

Starfsemin hófst sumarið 1962 og sumarið 1963 voru börnin flest á einum degi 48 að tölu, en annars að meðaltali 20-30. Völlurinn var opinn í 3 mánuði, eða júní, júlí og ágúst frá kl. 1-6 á virkum dögum.
Kvenfélagið Brynja rak barnaleikvöllinn með styrk frá Flateyrarhreppi í nokkur ár.
Árið 1967 réðst kvenfélagið Brynja í að stækka húsið og fékk það nafnið Brynjubær. Þar var starfandi leikskóli fyrir börn á leiksólaaldri allt til þess að hin glæsilega, nýja leikskólabygging „Grænigarður“ var tekin í notkun.

Brynjukot, Ránargötu 6

Á árinu 1987 fékk kvenfélagið Brynja gjafaafsal frá Jónasínu Hallmundsdóttur þar sem hún færði félaginu að gjöf húseign sína að Ránargötu 6, Flateyri.
Húsið er dæmigert fyrir hús sem byggð voru í byrjun 20. aldar, en það hefur verið byggt í þremur áföngum þótt ekki sé það stórt. Kvenfélagið Brynja hefur selt út gistiaðstöðuna í húsinu undanfarin ár, en einnig nýtt húsið til fundahalda. Þar sem Brynjukot er komið til ára sinna hefur kvenfélagið þurft að kosta miklu fé til nauðsynlegs viðhalds og endurbóta.

Gjafir – Viðurkenningar

Gjafir og viðurkenningar sem eru fastir liðir í starfsemi félagsins til margra ára eru jólagjafir til eldri borgara og viðkenningar til nemanda í Grunnskóla Önundarfjarðar sem nær góðum árangri í íslenskunámi við lok skyldunámsins í 10. bekk.
Íþróttastarf, björgunarsveitir, skólastarf bæði í leikskóla og grunnskóla hefur verið styrkt með ýmsum hætti á undarförnum árum eins og áður hefur verið greint frá.

Brynjukonur eru afar þakklátar þeim fjölmörgu sem hafa stutt félagið þegar það hefur verið með einhvers konar fjáröflun eða leitað eftir stuðningi á annan hátt. Stuðningurinn hefur greitt fyrir framgangi þeirra góðu framfara- og mannúðarmála mála sem kvenfélagið hefur beitt sér fyrir.

Félagskonur í kvenfélaginu Brynju eiga sér einlæga ósk um að starfsemi félagsins verði áfram öflug sem fyrr og það takist að finna starfinu farveg sem sameinar allt það ánægjulega við samveru og samstarf — en er jafnframt í þeim anda sem markmið félagsins kveða á um.

Samantekt í mars 2018 Jóhanna Kristjánsdóttir

DEILA