Halti Billi heldur af stað

Mynd: Leikfélag Hólmavíkur.

Leikfélag Hólmavíkur, í samvinnu við Grunnskólann á Hólmavík, hefur undanfarið sýnt leikritið Halta Billa eftir Martin McDonaugh við góðar undirtektir á Ströndum. Svo góðar, að leikarar og leikstjóri hafa ákveðið að leggja heiðar og firði undir fót og nú er von á sýningunni á bæði Þingeyri og Patreksfjörð. Laugardaginn 28. apríl kl. 20:00 verður Halti Billi sýndur í Félagsheimilinu á Þingeyri og daginn eftir, eða sunnudaginn 29. apríl kl. 16:00, haltrar Billi í Skjaldborgarbíó á Patreksfirði. Það verður eflaust mikið stuð í leikfélagsrútunni hjá Strandamönnum og ekki síður leikhúsgestum hér vestar. Á síðu viðburðarins segir: „Halti Billi gerist á Írlandi, eins og flest verka McDonagh. Sagan á sér stað í Inishman á Araneyjum árið 1934, einmitt þegar tökulið frá Hollywood er við störf á nærliggjandi eyju. Viðburður sem þessi hefur vissulega mikil áhrif á smábæjarlífið og margir sjá fyrir sér að nú sé tækifærið til að flýja fátækt, slúður og almenn leiðindi. Billi er þar engin undantekning en þó er hann bæði munaðarlaus og fatlaður og því ekki beint það sem Hollywood leitar að, eða hvað?“ Strandaleikarar skrifa enn fremur að leikverkið sé frábær spegill á smábæjarlífið og fámennið sem við þekkjum svo vel hérna á Vestfjörðum.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA