Gönguskíðanámskeið á Bíldudal

Kjöraðstæður eru á Bíldudal fyrir unnendur gönguskíða.

Gönguskíðanámskeið verður haldið á Bíldudal, föstudaginn 13. og laugardaginn 14. apríl. Í auglýsingu sem birtist um námskeiðið stendur að frítt sé á námskeiðið, sem hentar bæði byrjendum sem lengra komnum, en Arnarlax og Skíðafélag Vestfjarða bjóða á námskeiðið. Sérstök barnakennsla verður á föstudeginum frá 12:00 til 15:00 og hægt er að fá lánuð skíði fyrir börnin. Námskeiðið fyrir fullorðna hefst svo kl. 15:00 á föstudag og stendur til 18:00, sem og á laugardag á milli 10:00 og 15:00

BB lék forvitni á að vita meira um þetta skemmtilega framtak Arnarlax og Skíðafélags Vestfjarða á Bíldudal, en upphafið má rekja til þess að Iða Marsibil Jónsdóttir, sem er búsett á Bíldudal og vinnur hjá Arnarlaxi, fór á gönguskíðanámskeið á Ísafirði. „Í stuttu máli sagt þá er ég mikið fyrir útivist, en í vetur langaði mig að gera eitthvað annað en að ganga og hlaupa hér um,“ segir Iða Marsibil og heldur áfram. „Þegar ég var að alast hér upp var mikil skíðamenning á Bíldudal og fékk ég því að njóta þess tíma þegar það var mikið líf „á fjallinu“. Sú menning hefur breyst og þróast frekar út í vélsleðasport á þeim árum sem ég var í burtu.“ Iða Marsibil flutti aftur á æskuslóðir árið 2014 en þá var engin skíðalyfta lengur á svæðinu. „Ég frétti af gönguskíðanámskeiðunum sem Daníel og Vala standa fyrir á Ísafirði og ákvað að skella mér til Ísafjarðar og prófa. Þarna var komið tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn.“

Það er óhætt að segja að Iða Marsibil hafi fallið fyrir gönguskíðunum en þegar hún kom heim rauk hún „á fjallið“, upprifin í kjölfar námskeiðsins. „Við ræddum þetta vinnufélagarnir á skrifstofunni hjá Arnarlaxi og vorum sammála um að svæðið hér í kring gæti hentað vel undir gönguskíðabraut. Það hefur svo sýnt sig, með aukinni aðsókn fólks víða að, að aðstæður hér eru mjög flottar og með því besta sem gerist á landinu.“ Iða Marsibil bendir á að ekki skemmi útsýnið fyrir, en á gönguskíðasvæðinu er gríðarmikið útsýni til allra átta yfir firði og fjöll í kring.

Skíðafélag Vestfjarða var stofnað fyrir nokkrum árum, en félagið hafði fjárfest í troðara fyrir nokkrum árum. Iða talar um að troðarann hafi átt að nota svolítið sem ígildi skíðalyftu. „Hann hefur núna öðlast svolítið annað hlutverk, en hann hefur nánast eingöngu verið notaður í vetur til að troða gönguskíðabrautir.“

Iða Marsibil segir að það sé auðvitað þannig að fólkið á Bíldudal sé alltaf að reyna að auka lífsgæði sín og því hafi þeim á skrifstofunni dottið í hug að tala við hjónin „fyrir norðan“ og athuga hvort þau gætu ekki skroppið á Bíldudal til að halda námskeið. Þarna er Iða Marsibil að vísa í hjónin Hólmfríði Völu Svavarsdóttur og Daníel Jakobsson. Iða Marsibil heldur áfram, „Þau tóku vel í þetta, svo ákveðið var að halda námskeið. Arnarlax ákvað í kjölfarið að bjóða á námskeiðið, en fyrirtækið tekur samfélagslega ábyrgð sína alvarlega og leggur sitt af mörkum til þess að efla hér samfélagið á margan hátt, meðal annars styður fyrirtækið vel við íþróttastarf HHF og einnig erum við einn af stærstu styrktaraðilum Körfuboltadeildar Vestra, ásamt því að styðja við ýmsa menningarviðburði á Vestfjörðum öllum“.

Veðurspáin er góð fyrir helgina, svo það ætti að vera tækifæri fyrir fólk af öllum Vestfjörðum að skella sér á námskeiðið. „Búið er að opna á milli, svo „norðanfólkið“ ætti endilega að brjóta upp vanann og reyna sig í braut í nýju umhverfi og nýjum félagsskap hér hjá okkur á Suðurfjörðunum.“ Iða Marsibil bætir við að vertinn á Vegamótum verði með tilboð á kjötsúpu í hádeginu á laugardag en einnig verði tilboð á léttum veitingum í „eftir-skíða“ stemningu strax að námskeiði loknu.

 

 

 

 

 

Margrét Lilja

milla@bb.is

 

DEILA