Franskur sveitamatur vinsæll á heimilinu

Við þökkum Davíð og Gerði fyrir áskorunina. Þetta verður nú frekar einfalt hjá okkur. Franskur sveitamatur er vinsæll á okkar heimili. Ekkert vesen, dálítið gamaldags en ljúffengur. Lambaskankar eru ódýrir en mjög góður matur. Þá má hita upp (ef einhver afgangur verður) og ekki versnar rétturinn við það. Þeir henta jafnt kvenfólki sem og mjög svöngum karlmönnum. Maturinn hentar Vestfirðingum vel, þeir geta skotið þessu inn í ofn og farið á skíði eða út á bát á meðan þetta mallar í ofninum.

Með lambaskönkunum berum við fram kartöflustöppu og í desert bananatertu og rjóma. Þetta gæti bara ekki verið einfaldara eða ljúffengara.

Lambaskankar í rauðvínssósu
Fyrir 6 svanga.

6 lambaskankar
2 laukar, saxaðir
4 hvítlauksrif, kreist eða söxuð

1 rautt chili án fræja
3 stönglar af sellerí, gróft saxaðir
6 gulrætur, gróft sneiddar
2 dósir niðursoðnir tómatar, gróft saxaðir.
2 msk tómatpuré
2 glös af vatni
2 glös af rauðvíni (þarf ekki að vera verðlaunavín)
Tæplega búnt af rósmaríni

1 msk Maldon salt (etv meira)
Nokkrir góðir snúningar úr piparkvörn
Ólívuolía.

Hitið ofninn í 180°C. Ég nota ofnpott sem má fara í ofninn fyrir skankana. Lambaskankarnir eru kryddaðir með salti og pipar og brúnaðir í pottinum í olíu við háan hita á öllum hliðum og svo eru þeir settir til hliðar. Bætið smá olíu aftur á pönnuna. Grænmetið er steikt á pönnunni uns það er orðið mjúkt og létt gyllt. Gætið þess að hræra vel í.
Tómötum, víni, vatni og kryddi er bætt á pönnuna og hært vel í og látið nú blönduna sjóða rétt aðeins og bætið nú skönkunum út í stingið inn í ofn. Þetta er látið steikjast í tæpa tvo tíma. Má endilega setja á lægri hita og hafa lengur. Bara betra. Skankarnir eiga að losna af beinunum þegar rétturinn er tilbúinn.  Passið ykkur að brenna ykkur ekki á pottinum þegar hann er tekinn út!

Kartöflustappa

Rúmt kíló af kartöflum eru soðnar og afhýddar (eða ekki ef þær eru nýjar eða möndlukartöflur úr Costco) og marðar í hrærivél eða með kartöflustappara. Ríflega eða tæplega (eftir því sem við á) 2 dl af rjómablandi (mjólk og rjómi) eru hituð að suðumarki og bætt út í kartöflustöppuna sem og 75 gr af smjöri, smá af sykri og tsk af salti og smá pipar. Smakkið til. Hært vel saman. Gætið þess að stappan verði ekki of þunn en hún má vera gróf.  Stöppuna má líka krydda með hvítlauk/rósmarín/timían eða steinselju.

Á mínu heimili er mikið borðað af kartöflustöppu og þess vegna má nú alveg sjóða meira en kíló af kartöfllum fyrir svona marga!

 Bananaterta

Mig langar til að deila með ykkur uppskrift af bananatertu sem hefur verið fjölskyldueftirréttur okkar í áratugi. Leyniuppskrift sem hefur ekki verið deilt með nokkrum manni utan fjölskyldunnar áður. Móðursystir mín, Sigríður Gunnarsdóttir, færði mömmu minni tertuna einu sinni og hefur hún verið fastur liður á borðum síðan. Tertan á að minna okkur á hversu gott líf við eigum því hún kemur nefnilega frá Haítí.

Sigga frænka mín fluttist til þessarar suðrænu eyju árið 1969 og gifti sig meira að segja þar. Eiginmaður hennar starfaði þá í frönsku utanríkisþjónustunni og bjuggu þau á eyjunni í tæplega tvö ár áður en þau fluttu til Frakklands, hvar þau hafa búið alla tíð síðan.

Sigga frænka er án efa ein sú allra flinkasta í eldhúsinu sem ég þekki. Að mínu viti og margra annarra er bananatertan einn besti desert sem hægt er að bjóða upp á.

Botn

200 gr smjör

2 eggjarauður

100 gr hveiti

80 gr sykur

Örlítið salt

Fylling

3 bananar, skornir í sneiðar

3 msk romm, helst dökkt

Marensþak

2 eggjahvítur

130 gr sykur

  1. Hitið ofninn í 175°C.
  2. Blandið hveiti og sykri í skál.
  3. Myljið smjörið saman við.
  4. Bætið eggjarauðunum út í og hnoðið í fallega kúlu. Má gera með krók í hrærivél.
  5. Pakkið deiginu inn í plastfilmu og geymið í ísskáp í amk 1 klst.
  6. Þeytið eggjahvíturnar. Gætið þess að skálin sé tandurhrein og ísköld.
  7. Bætið sykrinum út í og stífþeytið á meðalhraða.
  8. Fletjið deigið út og setjið í stórt pie-form. Passið að deigið nái vel upp á barmana á forminu.
  9. Sneiðið bananana og raðið í botninn. Sullið romminu yfir.
  10. Smyrjið marengsinum yfir með sleikju og stingið tertunni inn í 175°C heitan ofn og bakið í miðjum ofni í c.a. 20 mínútur eða þangað til marengsinn er fallega gylltur.
  11. Berið tertuna fram, helst volga, með rjóma.

 

Við skorum á eðal Patreksfirðingana, ibúana í Jóhannshúsi og vertana á Stekkabóli  Fanneyju Sif Gísladóttir og Óskar H. Gíslason (þau eru hjón sko) að vera matgæðinga næstu viku.

Ásthildur Sturludóttir og Hafþór Jónsson

 

DEILA