Fjölskylduverkefnið Dokkan Brugghús

Valur Norðdahl og Hákon Hermannson.

Einhverjir hafa kannski heyrt af því að stofnað hefur verið brugghús á höfninni á Ísafirði, nánar tiltekið á Sindragötu 11. Dokkan Brugghús mun án efa vekja mikla athygli, ekki bara heimamanna, heldur líka þeirra sem sækja staðinn heim. Mikill áhugi hefur verið fyrir verkefninu og bjórunnendur spenntir að fá að prófa fyrsta vestfirska bjórinn.

Eigendur Dokkunnar Brugghús eru Gunnhildur Gestsdóttir, ásamt börnum sínum, Sif Huld Albertsdóttur og Arnari Friðriki Albertssyni, en fjölskyldur þeirra standa allar að baki rekstrinum. Það er svo sannarlega hægt að tala um fjölskylduverkefni, en daglegur rekstur Dokkunnar er í höndum tengdasonar Gunnhildar, Hákons Hermannssonar og undirbúningur er nú í fullum gangi. „Við ákváðum að stofna ísfirskt brugghús undir nafninu Dokkan Brugghús með það að markmiði að gera vestfirskan bjór,“ segir Gunnhildur og bætir við að þau vilji gera vestfirskan bjór fyrir Vestfirðinga og alla þá gesti sem heimsækja Vestfirði. „Aðal áherslan svona til að byrja með verður á að framleiða bjórinn og selja til heimamanna og annarra Vestfirðinga, en auðvitað líka til allra gestanna sem koma til okkar. Við munum bjóða upp á skoðunarferðir um verksmiðjuna og leyfa fólki að bragða á framleiðslunni. Þegar fram líða stundir munum við svo leyfa öllum landsmönnum að njóta framleiðslunnar.“ Gunnhildur segir að nafnið Dokka sé tilkomið vegna örnefnis á Ísafirði. „Allir sem eitthvað þekkja til Ísafjarðar vita hvar Dokkan er. Við áformum að gera sögu Dokkunnar hátt undir höfði.“

En hvenær geta Vestfirðingar og gestir bragðað á þessum ísfirsku veigum? „Dokkan Brugghús mun vonandi hefja starfsemi í byrjun sumars. Tækjabúnaðurinn er kominn og við erum langt komin með að setja hann upp. Þegar það er allt búið þá hefst bruggunin.“ Gunnhildur talar um að þau hafi fengið til liðs við sig heimamanninn Val Norðdahl, til að aðstoða við bruggunina. „Valur er innfæddur Ísfirðingur og býr í nágrenni Dokkunnar. Þar sem þetta á að vera vestfirskt handverk, þá leituðum við að sjálfsögðu að heimamanni til þess að brugga.“ Gunnhildur segir að fjölskyldan hafi ekki endilega verið meiri bjórunnendur en hver önnur áður en þau stofnuðu Dokkuna, en áhuginn hafi vissulega aukist í ferlinu.

Gunnhildur segir að verkefnið hafi gengið vel sem slíkt. „Það eru auðvitað alltaf einhverjar seinkanir á svona verkefni, þar sem búnaðurinn kemur alla leið frá Kína. Svo þarf að setja hann allan upp.“ Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig maður velur rétta bjórinn til að framleiða. Varla byrjar hann bara að renna úr búnaðinum? „Það þarf að gera prufulaganir af veigunum og velja svo hvað á að fara í framleiðslu og hvað getur gengið.“ Gunnhildur er leyndardómsfull hvað varðar bruggunina en bætir við að þau hafi kannski ekki alveg gert sér grein fyrir því hversu stórt þetta ferli yrði. „En þetta hefur verið skemmtilegt og fræðandi ferli. Við hlökkum bara til framhaldsins.“

En hvernig kviknar hugmyndin að því að stofna brugghús? „Sonur minn, Arnar Friðrik, heimsótti bruggverksmiðjuna Beljanda á Breiðdalsvík og upp úr þeirri heimsókn spratt hugmyndin.“ Segir Gunnhildur og bendir á að Vestfirðir séu eini fjórðungurinn sem hefur ekki getað státað af brugghúsi. „Með Dokkunni Brugghúsi verður gerð bragarbót á því. Við höfum bara fengið góð viðbrögð við þessu verkefni okkar og fundið fyrir því að fólk sé almennt spennt fyrir þessu. Það eru til dæmis margir sem fylgja okkur á Facebooksíðunni okkar. Við verðum svo einnig með heimasíðu, en hún er enn í vinnslu.“

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA