Fjölmennur íbúafundur á Reykhólum

Mynd: Áslaug Guttormsdóttir.

Á heimasíðu Reykhólahrepps kemur fram að fjölmennur íbúafundur hafi verið haldinn 25. apríl. Íbúar Reykhólahrepps og formenn hinna ýmsu nefnda ásamt fleirum, hittust í Reykhólaskóla til að ræða hin ýmsu málefni. Hólabúð lokaði kl. 16:50 þennan dag, svo engin myndi nú freistast í nammibarinn frekar en að fara á íbúafundinn, sem stóð frá kl. 17-19. Fundurinn hófst á því að sveitarstjórinn bauð fólk velkomið í salinn og skipuleggjandi Reykhóladaga sagði örstutt frá helstu málum sem eru framundan í hreppnum. Að því loknu var fólk orðið kaffiþyrst og skellti í sig nokkrum bollum áður en það hóf umræður í hópum með formönnum nefnda úr hreppnum. Í þessum hópum sögðu formennirnir frá verkefnum og stöðu mála í þeim málaflokkum sem nefndir sveitarfélagsins hafa á sinni könnu. Hóparnir skrifuðu svo niður hugmyndir sínar og athugasemdir um hvað þeir vildu láta gera. Í seinni umræðu skiptu formennirnir um hópa og hugmyndirnar voru skoðaðar áður en þær voru bornar upp fyrir atkvæðagreiðslu. Það voru hin ýmsu mál sem brunnu á íbúunum en það sem fólkið taldi mikilvægast voru húsnæðismál, samgöngur og götur, framhaldsskóladeild á Reykhólum, slökkviliðsmál og aðstaða og upplýsingar fyrir ferðafólk. Og svo umhverfismál að sjálfsögðu. Tómstundafulltrúi Reykhólahrepps, Jóhanna Ösp Einarsdóttir, og Skúli Gautason, menningarfulltrúi Vestfjarða, sáu um undirbúning og stjórn þessa fundar.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA