Eiga Hornstrandir að vera farsímalaust svæði?

 „Engin áform eru uppi í augnablikinu um uppbyggingu innviða fyrir farsímakerfi eða önnur fjarskipti á Hornströndum, hvorki af hálfu opinberra aðila né einkaaðila. Skortur á farsímaþjónustu hefur lengi þótt efla upplifun ferðamanna á Hornströndum og hafa þau sjónarmið komið fram að tryggja ætti Hornstrandir sem farsímalaust svæði. Rétt er að taka fram að talsamband um gervihnattasíma er víðast aðgengilegt á svæðinu.“

Þetta kemur fram í nýlegu svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur alþingismanns.

Víðast vel nothæft samband nema næst landi undir klettum

Í svarinu kemur fram að Neyðarlínan reki fjarskiptakerfi Vaktstöðvar siglinga og síðan segir: „Á hafsvæðinu kringum Hornstrandir er víðast vel nothæft samband við þau kerfi nema helst gagnvart minnstu bátum mjög nærri landi undir klettum. Í slíkum bátum (undir 15 m) eru lág loftnet og svokölluð B-fjarskiptatæki sem eru lakari en sambærilegur búnaður um borð í stærri skipum. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur og hefur eftirlit með fjarskiptabúnaði skipa. Sendar á Bolafjalli, Finnbogastaðafjalli og Steinnýjarstaðafjalli þjóna Hornströndum og hafsvæðinu í kring. Auk þess er AIS/STK-sendir á Straumnesfjalli.“

Ekki lögboðin þjónusta

Vakin er athygli á því að farsímaþjónusta á Íslandi sé veitt af einkaaðilum og að ekki sé um lögboðna þjónustu að ræða, þótt stjórnvöld vilji stuðla að aukinni almennri útbreiðslu. Dómsmálaráðuneytið fer með mál er varða leit og björgun, þar á meðal samræmda neyðarsímsvörun ( 112) og Tetrakerfið sem Neyðarlínan á og rekur.

Í svarinu kemur fram að þjónustusvæði Tetra sé að mestu afmarkað við hluta sunnanverðra Hornstranda. Í Hlöðuvík er fastsett Tetra-handstöð tengd loftneti utan á húsi sem virkar vel. Til skoðunar er hjá Neyðarlínunni að koma fyrir litlum Tetra-endurvarpa í Höfn í Hornvík þar sem landvörður UST er með aðstöðu.

Jarðrask, sjónmengun og óöruggt rafmagn

Loks er í svari samgöngu og sveitarstjórnarmála rætt almennt um farsíma og fjarnetssamband á Hornströndum og segir þar:

„Farsíma- og farnetssamband er einnig að mestu afmarkað við sunnanverðar Hornstrandir þar sem er sjónlína á fjarskiptasenda á Bolafjalli. Aukið Tetra-, farsíma- og farnetssamband á Hornströndum og hafsvæðinu í kring er háð uppbyggingu og rekstri á nýjum fjarskiptastöðvum á Hornströndum þar sem alla innviði raforku, fjarskipta og samgangna skortir í dag. Hornstrandir hafa verið friðland síðan árið 1985. Þar ber því að forðast allt rask sem hægt er að komast hjá. Líklegt er að framkvæmdir vegna fjarskipta yrðu með tilheyrandi jarðraski og sjónmengun. Þá er rétt að benda á að mikinn hluta ársins yrði að afla orku fyrir fjarskiptastöðvar með keyrslu dísilknúinna rafstöðva. Þótt settar yrðu upp nokkrar slíkar fjarskiptastöðvar liggur fyrir að fjarskipti myndu aðeins batna á hluta svæðisins sem myndi skapa falskt öryggi fyrir viðbragðsaðila og ferðamenn á svæðinu sökum strjállar þjónustu og óáreiðanlegs rekstraröryggis.“

-Gunnar

DEILA