Efnilegir ungir iðkendur körfuknattleiksdeildar Vestra

Efnilegir ungir iðkendur Körfuknattleiksdeildar Vestra.

Gott gengi Körfuknattleiksdeildar Vestra fer ekki fram hjá mörgum þessa dagana en nýverið hafa 4 iðkendur í yngri flokkastarfi verið valdir í lokahópa U15 og U16 landsliða KKÍ fyrir sumarið 2018. Á heimasíðu Vestra kemur fram að þátttakendur hafi aldrei verið fleiri frá Vestra í æfingahópum landsliða, en alls voru tíu iðkendur félagsins, á aldrinum 15 til 17 ára, valin í úrtakshópa sem æfðu undir stjórn landsliðsþjálfara á milli jóla og nýárs.

Helena Haraldsdóttir og Friðrik Heiðar Vignisson voru valin í lokahóp U15 og bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir voru valdir í lokahóp U16 landsliðsins.

U15 liðin taka þátt í alþjóðlegu móti 14. til 17. júní, en þar verða tvö 9 manna lið stúlkna og drengja. Þjálfari stúlknanna er Ingvar Þór Guðjónsson og honum til aðstoðar er Atli Geir Júlíusson. Þjálfari drengjanna er Hjalti Þór Vilhjálmsson og aðstoðarþjálfari Skúli Ingibergur Þórarinsson.

U16 liðið tekur þátt í Norðurlandamóti í Finnlandi í lok júní og svo í Evrópukeppni FIBA síðsumars. Þjálfari liðsins er Ágúst Björgvinsson og aðstoðarþjálfari Snorri Örn Arnaldsson.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA