Árshátíð Bíldudalsskóla og Tjarnarbrekku

Mánudaginn 9. apríl héldu Tjarnarbrekka og Bíldudalsskóli árshátíð, eins og fram kemur á heimasíðu þeirra. Þar segir enn fremur: „Nemendur skólans höfðu unnið að undirbúningi í smiðjutímum í skólanum. Markmiðið var að vinna með ákveðna hæfni sem byggist á hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskólans, ásamt völdum lykilhæfni viðmiðum. Sem dæmi um það sem unnið var með má nefna hæfniviðmið úr íslensku, samfélagsfræði og sviðslistum. Þema árshátíðarinnar var hinn ástsæli barnabókahöfundur Astrid Lindgren. Hún var einstaklega afkastamikill rithöfundur, en bækur hennar hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og alls staðar hlotið góðar viðtökur. Sögur hennar búa oft yfir ævintýraljóma, eru spennandi og dularfullar og vináttan er oft í forgrunni. Sögupersónur Astrid Lindgren eru ógleymanlegar og þær lifa góðu lífi með nýjum kynslóðum lesenda. Á árshátíðinni var boðið upp á fimm atriði og nemendur skreyttu salinn með verkum sem þeir útfærðu í sjónlistum. Unglingastigið bjó til veggspjöld með fróðleiksmolum um Astrid Lindgren, nemendur miðdeildar bjuggu til myndir af þekktustu sögupersónunum og myndirnar voru hengdar upp í salnum, yngsta stigið bjó til bók með skemmtilegum staðreyndum um höfundinn, en öll sviðsmyndin var útfærð og búin til af nemendum. Boðið var upp á glæsilegt hlaðborð í boði foreldrafélagsins. Það er óhætt að segja að gleðin hafi verið við völd á árshátíðinni, nemendur höfðu lagt hart að sér við undirbúning og sýnt mikinn metnað og uppskáru eftir því. Frábær skemmtun með frábærum krökkum.”

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA