Útflutningsverðmæti fiskeldis frá Vestfjörðum álíka og þorsksins

Sjókvíar í Arnarfirði.

Það hefur alltaf einkennt sjávarútveg á Vestfjörðum að hann er fyrst og fremst byggður á þorskveiðum og vinnslu. Um þessar mundir er þorskkvóti Vestfirðinga um 20 þúsund tonn og ætla má að útflutningsverðmæti þess afla geti verið um 8 milljarðar króna. Útflutningsverðmæti á laxi frá Vestfjörðum í fyrra var um 8 milljarðar króna. Samkvæmt úttekt Byggðastofnunar á þróun atvinnutekna, námu þær 927 milljónum í fiskvinnslu á Vestfjörðum utan Ísafjarðarbæjar, en 811 í fiskeldi á sama svæði.

Þetta kom fram í ræðu Einars Kristins Guðfinnssonar, formanns Landssambands fiskeldisstöðva, á aðalfundi samtakanna á dögunum. Hér fer á eftir sá hluti ræðunnar sem fjallar um þessi mál:

„Leyfist mér ekki að koma með vestfirskan vinkil inn í þessa umræðu? Vestfirðir hafa háð varnarbaráttu undanfarin ár og ýmislegt verið mótdrægt. Undanfarin ár höfum við hins vegar séð að Vestfirðingar hafa náð betur vopnum sínum og sjávarútvegur, jafnt útgerð og fiskvinnsla verið að aukast. Það er vel. Það hefur alltaf einkennt sjávarútveg á Vestfjörðum að hann er fyrst og fremst byggður á þorskveiðum og vinnslu. Um þessar mundir er þorskkvóti Vestfirðinga um 20 þúsund tonn og ætla má að útflutningsverðmæti þess afla geti verið um 8 milljarðar króna.

En nú hefur mynstrið breyst á Vestfjörðum. Laxeldi er þegar orðið ein af meginstoðum atvinnulífsins þar. Þetta má sjá af því að útflutningsverðmæti á laxi frá Vestfjörðum er núna álíka og svarar til útflutningsverðmætis þorskkvóta svæðisins. Ljóst er að á þessu ári mun útflutningsverðmæti laxeldis á Vestfjörðum verða mun meira en sem svarar útflutningsverðmæti magns þess sem þorskkvótinn er. Í nýrri skýrslu Byggðastofnunnar kemur fram að launatekjur í fiskvinnslu á Vestfjörðum utan Ísafjarðarbæjar eru álíka og í fiskeldi á sama landssvæði. Eru þó öflugar fiskvinnslustöðvar í hefðbundinni fiskvinnslu á þessu svæði. Og á sama tíma og fiskeldið hefur verið að eflast á þessu landsvæði hafa meðaltekjurnar verið að hækka úr því að vera um 87% af landsmeðaltalinu í það að vera álíka landsmeðaltalinu. Þar sem áhrifa fiskeldisins gætir með skýrustum hætti, í Vesturbyggð, hefur íbúum fjölgað um 200, tekjur hafnasjóðsins vaxið um 85% og sveitarfélagsins um 75%.

Þetta eru raunveruleg dæmi úr samtímanum. Og það sem er ánægjulegast er að svona verður þetta líka á Austfjörðum og víðar á Vestfjörðum í kjölfar þess að fiskeldi byggist þar upp. Þarf þá nokkurn að undra að fólk á þessum svæðum kalli eftir því að fiskeldi fái svigrúm til uppbyggingar.“

 -Gunnar

DEILA