Sjaldan verið jafn glöð í aðfluginu á Ísafirði

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Margir þekkja hana Höllu Signýju Kristjánsdóttur, sem ættuð er frá Brekku á Ingjaldssandi. Hún stýrði fjármálunum hjá Bolungarvíkurkaupstað um tíma og við góða raun en ákvað svo að bregða sér á þing á haustdögum, þegar kallað var til kosninga enn á ný. BB lék forvitni á að vita hvað það var sem heillaði við þingstarfið og hvers vegna Halla brást við þegar kallið kom.

„Ég hef nú alltaf haft áhuga á félagslegu starfi og samfélagsmálum og öllu því sem það inniheldur,“ segir Halla Signý í samtali við BB.is. „Ég hef alltaf haft áhuga á og tekið þátt í pólitísku starfi. Árið 2009 fór ég í prófkjör en það varð ekkert úr því en svo í haust þegar ríkisstjórnin sprakk þá hnippti Siggi, eiginmaður minn í mig og sagði: „Jæja, nú ferðu fram.“ Ég hnussaði nú bara en svo fór ég fram og það endaði bara þannig að ég komst áfram.“

Sumir muna eftir kosninganóttinni, þegar Halla var ýmist inni eða úti hálfa nóttina, en hún var í öðru sæti hjá Framsóknarflokknum í Norðvestur kjördæmi. Þingstarfið getur verið bæði skemmtilegt og krefjandi segir Halla Signý og ákaflega fjölbreytt. Starfið krefst þess að hún myndi sér skoðun á hinum ólíkustu málum, allt frá málum sem fjalla um sjúkraflutninga á landsbyggðinni og upp í eignarhald á Landsvirkjun. En þetta er líka það sem henni finnst skemmtilegast við starfið, það er að hitta fólk og tala við það. Margir hafa samband við hana og biðja um aðstoð, og það getur verið allt frá því að manneskju vantar styrki til að halda smalahundanámskeið eða að hún sé beðin um að hafa opinbera skoðun á stríðinu í Sýrlandi. Það sem kemur Höllu Signýju mest á óvart við starfið, þegar BB.is innir hana eftir því, er hversu ólík vinnan er innan og utan þingsalsins. Innan hans er fólk meira í fyrirfram ákveðnum hlutverkum sem minna helst á leiksýningu en utan þingsalsins og í nefndarstörfum er andrúmsloftið mjög ólíkt. „Þar leyfist þér meira að hafa þína persónulegu skoðun og fólk er bara að vinna saman og skipuleggja málin, óháð því hvaða flokkum það situr í.“

Lögheimili Höllu er sem fyrr í Bolungarvík og hún býr í raun á tveimur stöðum eftir að þing hófst. En hvernig er það spyr BB.is? „Það er auðvitað erfitt þegar við hjónin erum á sitthvorum staðnum en við reynum að fljúgast á,“ segir hún og flissar örlítið. „En núna til dæmis var ég í þriggja vikna törn í burtu og ég hef sjaldan verið jafn glöð í aðfluginu á Ísafirði eins og þegar ég kom heim. Það getur alveg tekið á fyrir alla að vinna svona fjarri heimilinu.“

Halla Signý segist vel geta hugsað sér að vinna áfram við stjórnmál eftir að þessu fjögurra ára tímabili lýkur vegna þess að þá verði hún komin almennilega inn í starfið. „Pólitík er vinna með fólki og fyrir fólk og ef mér finnst það jafn skemmtilegt eftir fjögur ár og mér finnst núna þá held ég alveg örugglega áfram,“ segir hún að lokum.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA