Sex verkefni á Vestfjörðum fengu um 26 milljónir

Bolungarvík. Mynd: SJS.

Sex verkefni á Vestfjörðum fengu alls 26.117.500 krónur, þegar úthlutað var í gær úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2018. Alls var 722 milljónum króna veitt úr sjóðnum fyrir árið í ár. Tekið er fram að gert sé ráð fyrir að Framkvæmdasjóðurinn úthlutaði alls 2,2 milljörðum á árunum 2018 til 2020 en úthlutað er árlega. Þetta er í fyrsta sinn sem sjóðurinn styrkir ekki ferðamannastaði í eigu ríkisins og er það í samræmi við breytta löggjöf um sjóðinn. Alls hljóta 56 staðir styrk úr sjóðnum að þessu sinni. Sérstök áhersla er lögð á að fjölga viðkomustöðum ferðamanna  til að stuðla að því að álag minnki á fjölsóttum stöðum og lýtur 21 verkefni að þessu markmiði.

Í samtali við Jón Pál Hreinsson, bæjarstjóra Bolungarvíkurkaupstaðar, kemur fram að þau hafi sótt um nokkra styrki og fengið tvo, sem þau eru afar glöð með. „Við erum ljómandi ánægð með þetta. Verkefnið í Skálavík er löngu tímabært, en við ætlum að byggja upp þjónustu, þar sem engin þjónusta hefur verið. Skálavík er mikil náttúruperla, sem er í miklu uppáhaldi hjá mörgum.“ Jón Páll bendir á að með uppbyggingu í Skálavík sé verið að búa til alveg nýjan áfangastað fyrir ferðamenn. „Hitt verkefnið er uppbygging einhverskonar útsýnispalls á Bolafjalli,“ segir Jón Páll og heldur áfram: „Við erum mjög spennt fyrir því verkefni, en það verður mjög áhugavert að sjá hvað kemur út úr því. Við sjáum fyrir okkur eitthvað í anda kínversku glerbrúarinnar, sem margir kannski kannast við. Einhverskonar brú eða útsýnispall, sem nær út fyrir brún Bolafjalls.“ Jón Páll segir að verkefnið sé á byrjunarstigi, en jafnvel sé verið að hugsa um að halda hönnunarsamkeppni um útsýnispallinn. „Ég held því fram að með útsýnispallinum séum við komin með ferðamannaperlu, sem muni hafa mikið aðdráttarafl og draga ferðamenn til okkar á Vestfirði.“

Hér fer á eftir listi yfir þau verkefni á Vestfjörðum sem fengu fjármuni úr sjóðnum fyrir yfirstandandi ár.

Áhugamannafélög

  1. Ferðamálafélagið Súðavíkurhreppi – Valagil – Waterfall Valley. Kr. 1.000.000.- styrkur til að útbúa göngustíg og brýr í Seljalandsdal, Álftafirði. Seljalandsdalur er gróðursæll dalur með fallegum fossum sem fáir vita af þótt hann sé á náttúruminjaskrá. Verkefnið felst í að auka aðgengi að svæðinu og er því líklegt til að fá ferðamenn til að stoppa lengur og uppgötva náttúrulegt aðdráttarafl svæðisins svo úr verði nýr áfangastaður.
  2. Félag um listasafn Samúels – Hús Samúels. Kr. 2.000.000.- styrkur til að ljúka endurbyggingu á húsi Samúels, m.a. til að hægt verði að taka á móti ferðamönnum. Listasafn Samúels í Selárdal er óvenjulegur staður með mikið aðdráttarafl þar sem blandast saman naívismi listamannsins og ægifögur náttúra. Uppbygging og viðhald listasafnsins þar sem unnt verður að taka á móti gestum er til þess fallið að auka á aðdráttarafl staðarins á Vestfjörðum og lengja ferðamannatíma.
  3. Rafstöðin, félagasamtök – Aðbúnaður ferðafólks og gesta. Kr. 3.984.000.- styrkur til að gera bílastæði á því útivistarsvæði sem rafstöðin stendur með upplýsingaskilti, göngustíg og hreinlætisaðstöðu. Áhugavert verkefni sem efla mun aðdráttarafl Bíldudals og sunnanverðra Vestfjarða.

Sveitarfélög

  1. Bolungarvíkurkaupstaður – Hönnun útsýnispalls á Bolafjalli. Kr. 2.800.000.- styrkur til hönnunar útsýnispalls á Bolafjalli. Bolafjall er einn mikilfenglegasti útsýnisstaður á landinu og hefur þá sérstöðu að þangað liggur vegur. Að sama skapi er staðurinn hættulegur. Pallurinn mun auka öryggi ferðamanna og stuðlað að því að Bolafjall yrði einn af ferðamannaseglunum á Vestfjörðum.
  2. Bolungarvíkurkaupstaður – Tjaldsvæði í Skálavík. Kr. 11.333.500.- styrkur til að koma upp hreinlætisaðstöðu og vatnssalernum í Skálavík, gerð bílastæðis og uppsetningu lokana og skilta til að koma í veg fyrir utanvegaakstur. Skálavík er fallegur staður með frumstæðu tjaldsvæði. Tími er kominn til að laga og bæta aðstöðu og koma reglu á umferð. Um leið og stuðlað er að auknu öryggi og vernd náttúru er verkefnið til þess fallið að auka aðdráttarafl staðarins.

Annað

  1. Sauðfjársetur á Ströndum ses. – Náttúrubörn: Fuglastígur og fróðleiksmiðlun Kr. 5.000.000.- styrkur til að leggja fuglastíg út Orrustutanga og gönguleið í fjöru að sagnahúsi á leið út á Langatanga. Í verkefninu felst einnig að laga bílastæði, smíða gönguhlið og miðla fróðleik með söguskiltum og merkingum. Sauðfjársetur og náttúrbarnaskóli eru að slíta barnsskónum og færast úr tilraunastarfsemi yfir í ferðamannastað sem sameinar aðdráttarafl náttúru og menningar.

-Gunnar

DEILA