Sameinað lið grunnskólanna á Suðureyri og Súðavík keppir fyrir Vestfirði í Skólahreysti

Undankeppni Skólahreystis 2018 fór fram í TM höllinni í Garðabæ í gær. Keppt var í tveimur riðlum, Vestfjarðarriðli og Vesturlandsriðli.

Sameinað lið grunnskólanna á Suðureyri og Súðavík sigraði Vestfjarðarriðilinn og munu því taka þátt í úrslitakeppni Skólahreystis, sem fram fer í Laugardagshöll 2. maí næstkomandi. Í sigurliðinu voru Flóki Hrafn Markan, Hera Magnea Kristjánsdóttir, Hjördís Harðardóttir, Ragnar Berg Eiríksson, Gabríel Bjarkar Eiríksson og Þórunn Birna Bjarnardóttir. Þjálfarar liðsins voru þau Karlotta Markan, Sara Hrund Signýjardóttir og Þormóður Logi Björnsson.

Skólahreysti er liðakeppni milli grunnskóla landsins, þar sem hvert lið samanstendur af tveimur strákum og tveimur stelpum sem öll þurfa að vera nemendur í 9. og/eða 10. bekk síns skóla.

Á hverju ári tekur mikill fjöldi skóla þátt í keppninni og eru því undankeppnir fyrir hvern landshluta til að ákvarða hvaða skólar taka þátt í úrslitakeppninni sjálfri. Einn skóli frá hverju landssvæði öðlast þátttökurétt í úrslitunum. Af 110 skólum sem taka þátt í ár taka 12 skólar þátt í úrslitum Skólahreystis 2018.

Við óskum þessu unga íþróttafólki til hamingju með árangurinn.

-Margrét Lilja Vilmundardóttir

margretliljavilmundardottir@gmail.com

DEILA