Met slegið í gangagreftri á einni viku

Kjaftbrjóturinn, sem hefur verið að mala efni alla vikuna. Efnið er notað til að laga veginn í göngunum.  

Í vikunni sem leið voru grafnir 90,2 m í göngunum, sem er met í gangagreftri á einni viku. Slær það metið sem sett var í síðustu viku um 10 m. Á meðfylgjandi grafi er vikuframvinda frá byrjun og eins og sjá má hefur met verið slegið þrisvar á síðustu fjórum vikum.

Heildarlengd ganganna í lok vikunnar var 1.571,3 m sem er 29,6 % af heildarlengd ganganna.

Grafið var nánast alla vikuna í gegnum basalt sem hentaði vel til borunar og sprenginga. Mjög lítið af vatni kemur úr berginu. Mest allt efni úr göngunum var haugsett til síðari nota. Hitastig hefur verið mælt með hitanemum sem komið hefur verið fyrir í berginu í útskotunum. Hitastig bergs, 5 m frá vegg, mældist 11,5 °C í útskoti B, 15,5 °C í útskoti C og svo 18,0 °C í útskoti D.

Á myndinni hér til hliðar sjá borholuför eftir allri þekjunni og vegg.

DEILA