Mannát og feminismi á Ströndum í sumar

Dagrún Ósk Jónsdóttir rannsakaði mannát í íslenskum þjóðsögum.

Ár hvert veitir Nýsköpunarsjóður námsmanna styrki til hinna ýmsu sumarverkefna. Eitt verkefnanna sem fékk styrk í ár, fjallar um mannát og feminisma. Það var Dagrún Ósk Jónsdóttir frá Hólmavík sem fékk styrkinn í ár. Dagrún er þjóðfræðingur og yfirnáttúrubarn í Náttúrubarnaskólanum á Ströndum.

„Ég skrifaði BA ritgerðina mína í þjóðfræði árið 2016 um mannát í íslenskum þjóðsögum,“ segir Dagrún í samtali við bb.is „Mannát er svona algengast í trölla og útilegumannasögum og frægasta mannæta Íslands er auðvitað Grýla. En það er mjög áhugavert að í tröllasögunum þá eru það eiginlega alltaf tröllkonur sem éta karla og ég fór að velta fyrir mér þegar ég skrifaði ritgerðina af hverju þetta stafar. Mig langaði svo að vinna aðeins meira með þessar pælingar og sótti þess vegna um styrk til Nýsköpunarsjóðs námsmanna til að setja upp sýningu um mannát og feminisma og skessur sem éta karla.“

Dagrún mun vinna með íslenskan þjóðsagnaarf á sýningunni og hún segir að þjóðsögur segi mikið um hvert samfélag sem þær tilheyra. „Það voru aðallega karlar sem söfnuðu þjóðsögum og gáfu út þjóðsagnaefni og þess vegna fela þau á vissan hátt í sér hugmyndaheim og heimsmynd þeirra. Fræðimenn hafa svo velt því fyrir sér hvort þessi birtingarmynd kvenna sem éta karla endurspegli á einhvern hátt ótta karla við að missa völd sín yfir konum.“ Dagrún telur að sýningin eigi mikið erindi þar sem umræðan í dag fjalli mikið um að konur séu að taka valdið til baka frá körlum. „Svo er líka gaman að blanda saman einhverju gömlu og einhverju sem er í gangi í dag, þjóðsögunum og feminismanum,“ segir Dagrún kímin. Hún mun dvelja á Ströndum í sumar og vinna að þessu verkefni, samhliða því að sjá um Náttúrubarnaskólann eins og undanfarin sumur.

-Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA