Kærður fyrir akstur undir áhrifum

Lögreglan á Vestfjörðum kærði einn ökumann um helgina grunaðan um akstur undir áhrifum áfengis. Sá var í akstri í miðbæ Ísafjarðar aðfaranótt 3. mars. Alls voru fimm ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Flestir voru þeir í akstri í Skutulsfirði en einn þeirra var stöðvaður í göngunum undir Breiðadals- og Botnsheiði.

Tilkynning barst til lögreglunnar um svokallaðar tjörublæðingar á Mikldal og á fjallveginum yfir Hálfdán í Vesturbyggð. Tjón hlaust af þessu á vöruflutningabifreið. Vegagerðinni var gert viðvart.

Lögreglan hefur undanfarna daga verið að fylgjast með umferð við Grunnskólann á Ísafirði og leikskóladeildina Tanga við Austurveg. Nokkrar ábendingar hafa borist um að ökumenn sem eru að aka börnum til og frá skóla megi bæta sig hvað umferðaröryggi varðar. Á háannatíma, rétt fyrir kl. 8 og um kl.16 virka daga, er börnum oft hleypt út úr bifreiðum foreldra sinna á hættulegum stöðum, s.s. á miðri akgrein, við hlið skólabifreiða eða annarra bifreiða sem er lagt í skammtímastæði. Lögreglan hvetur ökumenn til að leggja fyrr af stað með börn sín í skóla svo engin tímaþröng verði. Þá er hvatt til þess að fyllsta öryggis sé gætt við þessar aðtæður, enda ungir vegfarendur að fara yfir nærliggjandi götur í skólann og enn rökkur svo snemma morguns.

DEILA