Hlaut viðurkenningu fyrir frábæran einleik

Oliver Rähni við flygilinn.

Oliver Rähni, nemandi í Tónlistarskóla Bolungarvíkur hlaut viðurkenningu fyrir frábæran einleik á píanó á Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna í landinu, sem var haldin í Eldborgarsal í Hörpu.

Þar flutti Oliver krefjandi einleiksverk fyrir píanó eftir Percy Grainger sem var einn þekktasti píanisti síns tíma.

Á lokahátíðinni voru flutt 24 framúrskarandi tónlistaratriði sem valin höfðu verið á fernum svæðistónleikum Nótunnar um land allt. Frá Vestfjörðum og Vesturlandi komu þrjú atriði. Alls fengu 10 atriði af 24 sérstaka viðurkenningu. Vestfirðingar riðu feitum hesti frá Nótunni, en áður hefur verið greint frá að Pétur Ernir Svavarsson, nemandi í Tónlistarskóla Ísafjarðar, vann til aðalverðlauna Nótunnar.

Þetta er í þriðja skipti sem Tónlistarskóli Bolungarvíkur hefur sigur í sínum flokki á lokatónleikunum í Hörpunni. Þetta eru önnur verðlaunin sem Oliver hlýtur á lokatónleikum Nótunnar, en árið 2016 fékk hann sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi tónlistarflutning píanókonserts sem hann samdi sjálfur.

DEILA