Feðgar í sigurliði Vestra

Vestri lagði ÍA á Akranesi 84-96 í næst síðustu umferð 1. deildar karla á sunnudag. Án þess að setja sig á háan hest var þetta skyldusigur hjá Vestra enda er ÍA án sigurs í deildinni á meðan Vestri er í toppbaráttunni.

Þessi leikur verður þó í minnum hafður fyrir þær sakir að sá sögulegi viðburður átti sér stað að feðgar léku saman í liði Vestra í fyrsta sinn. Þetta voru þeir Baldur Ingi Jónasson (46 ára) og Ingimar Aron Baldursson (19 ára). Eftir frækilega framistöðu Baldurs gegn Haukum C í síðustu umferð 3. deildarinnar með Flaggskipi (B-liði) Vestra gat Yngvi Páll Gunnlaugsson yfirþjálfari einfaldlega ekki gengið framhjá Baldri. Þessi síungi leikmaður hefur verið frábær í vetur með Flaggskipinu, skorað 137 stig eða 17,1 að meðaltali í leik og alls 37 þrista í 8 leikjum. Þeir feðgar, Baldur og Ingimar, hafa áður tekið þátt í sama leik í 1. deildinni en þá sem mótherjar í liðum Ármanns og Vals. Það var því kominn tími til að þeir feðgar léku saman.

Körfuboltasagnfræðingar Vestra hafa legið yfir sögubókunum undanfarna daga og komist að þeirri niðurstöðu að hér sé líklega um einstakan atburð að ræða. Grípum niður í sagnfræðina en á vef Vestra segir:

„Feðgarnir Kári Marísson og Axel Kárason léku um skeið saman með Tindastóli rétt eftir aldamót og feðgarnir Alexander og Andrey Ermolinskij léku saman með ÍA skömmu fyrir aldamót. Yngri sonur Alexanders, landsliðsmaðurinn Pavel Ermolinskij, lék svo með föður sínum í Skallagrími veturinn 2001-2002. En eftir því sem næst verður komist hafa engir feðgar á Íslandi áður náð því að leika bæði sem samherjar og mótherjar í 1. deild eða úrvalsdeild.“

DEILA