Engin merki um dauðfisk í Tálknafirði

Sjókvíar í Tálknafirði.

Eftirlitsmaður Umhverfisstofnunar gekk fjörur í Tálknafirði á þriðjudaginn til að kanna hvort dauðfiski hefði skolað á land. Fiski sem rekja mætti til skemmda á sjókví hjá fiskeldi Arnarlax. Teknar voru myndir af fjörunni og aðgætt hvort óvenju mikið af fugli væri á svæðinu, sem getur verið merki um lífrænan, svæðisbundinn úrgang. Ekki fannst dauðfiskur frá fiskeldinu í fjörum á því svæði sem farið var um. Þá fundust ekki merki um óvenju mikinn fjölda fugla.

Umhverfisstofnun telur í kjölfar þessarar athugunar að dauðfiskur úr kvínni sé í litlu magni í umhverfi í kring, ef nokkru. Magn dauðfisks frá eldinu verður staðfest með skráningum úr innra eftirliti og kvittunum frá móttökuaðila úrgangsins. Því verður sinnt í næsta reglubundna eftirliti.

DEILA