Dalirnir tveir – paradís skíðamanna

BB sló á þráðinn til Hlyns Kristinssonar forstöðumanns skíðasvæðisins til að fá fréttir af Skíðasvæði Ísfirðinga í dölunum tveim.

Í dag verður opnað í Tungudal í 65 skipti í vetur, sem þætti ágætt meðaltal yfir allan veturinn. Besti veturinn hingað til eru 80 opnunardagar og ef veðurguðirnir leyfa verður það met slegið um páskana. Á Seljalandsdal hefur verið opið  73 daga í vetur.

Fyrsti skíðadagur síðustu vertíðar var í mars í fyrra en vegna betri skilyrða hófst yfirstandandi skíðavertíð í  nóvember. Besti mánuðurinn var desember, með einmuna blíðu og góðu skíðafæri. Febrúar var erfiðari en við slíku má búast á þorranum.

Nú þegar þetta er skrifað er búið að troða fimm brautir; braut 1, 3 og 4, Gilsbakka og Royalinn. Í undirbúningi er að troða braut 2 þannig að nóg pláss verður fyrir skíðamenn yfir helgina. Byrjað er að troða Fossavatnsleið og er göngubrautin komin fram hjá Miðfelli.

Á Seljalandsdal hefur verið mikið að gera í vetur og fjölmennir hópar hafa heimsótt Ísafjörð í æfingabúðir fyrir Fossavatnsgönguna. Þetta er mjög góð viðbót við vetrarferðamennsku í Ísafjarðarbæ.

Veðurspáin er góð fyrir helgina og færið eins og best verður á kosið og eru bæjarbúar og gestir hvattir til að drífa sig á skíði.

-gunnar

DEILA