Áfram uppbygging og íbúafjölgun

Gísli Halldór Halldórsson.

Í fyrsta sinn frá því sameinaður Ísafjarðarbær varð til, árið 1996, er nú að renna sitt skeið kjörtímabil þar sem íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað. Það var kominn tími til.

Á fyrstu árum þessa kjörtímabils mátti greina fjölgun í hópi ungs fólks með börn, fólks á aldrinum 30-40 ára, þrátt fyrir að íbúafjöldinn í heild stæði þá í stað. Þetta þýddi að aldurspýramídinn var að taka á sig heilbrigðari mynd og gaf fyrirheit um að fjölgun íbúa sveitarfélagsins væri í augsýn. Bæjarstjórn, undir forystu Í-listans, ákvað því við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 að óhætt væri að reikna með 1% íbúafjölgun á ári næstu árin. Þær vonir hafa heldur betur gengið eftir að undanförnu og rúmlega það.

Frá ársbyrjun til ársloka 2017 fjölgaði íbúum úr 3.609 þann 1. janúar og í 3.705 þann 31. desember. Frá því í ársbyrjun 2018 hefur okkur svo fjölgað í 3.770 þann 23. mars. Enginn meirihluti í Ísafjarðarbæ hefur náð slíkum árangri.

Heilbrigt ástand

Í fyrsta sinn frá sameiningu má segja að sveitarfélagið sé farið að upplifa „heilbrigt ástand“. Það má auðvitað telja til nokkrar skýringar á hvernig á því stendur að nú blasir við bjartari tíð og velmegun í bæjarlífinu. Ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu flýr undan miklum kostnaði og erfiðleikum í dagvistarmálum og leitar fyrir sér á þeim stöðum á landsbyggðinni sem virðast bjóða upp á ánægjulegt líf – þar sem góðir skólar og leikskólar eru lykilatriði, en einnig möguleikar til útivistar og heilsuræktar. Önnur skýring er að nokkrir tugir manna búa nú í við jarðgangagerð í Arnarfirði og eiga lögheimili þar. Þriðja skýringin er að fiskeldið, með Arctic Fish í fararbroddi, hefur verið að fjölga starfsmönnum í sveitarfélaginu og hefur nú marga tugi starfsmanna á sínum snærum í Ísafjarðarbæ.

Eitt af því sem breyst hefur í Ísafjarðarbæ síðustu ár er að meirihluti Í-listans hefur verið við völd á kjörtímabilinu sem er að líða og hefur lagt áherslu á að bæta aðstæður bæjarbúa. Í-listinn hefur lagt höfuðáherslu á gott mannlíf og góða þjónustu, þannig að fólki þyki reglulega gott að búa í Ísafjarðarbæ – svo gott að öðrum langi jafnvel að flytja hingað líka. Viðhald eigna og umhverfis, fegrun þess og úrbætur á göngustígum og gangstéttum skipta þar máli. Snjómokstur á gangstígum og gangstéttum hefur fengið sérstaka athygli. Úrbætur hafa verið gerðar í velferðarþjónustu og mikil áhersla lögð á að gera þjónustu við fatlaða hagkvæmari þannig að hana megi bæta, þó við séum líklega nú þegar í fremstu röð á landsvísu.

Framúrskarandi

Skólarnir okkar eru í fremstu röð og Grunnskólann á Ísafirði hefur vakið aðdáun skólafólks fyrir starfsemi sína. Áhersla hefur verið lögð á að útvega leikskólapláss og hefur aldurinn í mörgum tilfellum færst nokkuð niður fyrir þá 18 mánuði sem skólastefna Ísafjarðarbæjar lofar. Þarna vill Í-listinn gera ennþá betur. Á meðan fæðingarorlof á Íslandi er ekki lengra en raun ber vitni, eða 9 mánuðir, er ekki vanþörf á að gera betur og hljótum við að setja markið á að stytta bilið frá fæðingarorlofi til leikskólavistar eins mikið og kostur er. Nú þegar er fyrirhugað að stækka leikskólann Eyrarskjól á árinu 2019 og þá þarf strax að huga að frekari fjölgun leikskólaplássa í sveitarfélaginu til að taka við yngri börnum og til að bregðast við íbúafjölgun næstu ára.

Það er ekki ókeypis að gera Ísafjarðarbæ að framúrskarandi sveitarfélagi til að búa í. Við búum hér við margt óhagræði af hálfu ríkisvaldsins vegna kostnaðar við samgöngur og vegna lítils stuðnings við dreifbýlt sveitarfélag þar sem fasteignaverð er að jafnaði mun lægra en gengur og gerist í höfuðborginni. Af þessum sökum erum við með álagningu fasteignagjalda og útsvars í því hámarki

sem leyfilegt er– þó einnig þurfi að gæta hagkvæmni í rekstri sveitarfélagsins þannig að sem mestu megi áorka. Við trúum því að þeir sem vilja búa hér vilji fyrst og fremst fá góða þjónustu og séu tilbúnir að borga fyrir að vel sé búið að íbúum og börnum þeirra.

Góð fjárhagsstaða

Í-listinn hefur framkvæmt mikið og aukið þjónustu á kjörtímabilinu. Sérstök áhersla var engu að síður lögð á að lækka skuldahlutfallið sem miðað er við til að tryggja að sveitarfélög geti staðið undir skuldum sínum til framtíðar. Sveitarfélögum er ætlað að halda sér undir 150% í þessu skuldaviðmið. Ísafjarðarbær hefur stöðugt lækkað undanfarin ár og er nú kominn í um 120%. Þegar mörg verkefni blasa við til að byggja undir betri framtíð þarf áræðni og þor – niðurgreiðsla skulda þarf að bíða, en stöðugt þarf að hafa gætur á að skuldirnar vaxi ekki um efni fram.

Í-listinn hefur skilað góðum rekstri sveitarfélagsins allt kjörtímabilið þó stundum hafi á móti blásið og hefur verið haft orð á þessu víða þar sem maður hefur hitt stjórnmálamenn og aðra áhugasama. Það er ekki skrýtið að haft sé orð á því þegar vel gengur í Ísafjaðarbæ, því að hnignun síðustu áratuga var orðin slík að enginn getur viljað að hún endurtaki sig.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar

DEILA