Aðstæður flóttafólks frá Sýrlandi í Vísindaporti dagsins

Í Vísindaporti dagsins mun Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, túlkur og menningarmiðlari flóttamanna á norðanverðum Vestfjörðum, fjalla um stríðið í Sýrlandi og lífið í flóttamannabúðum í nágrenninu. Skoðað verður hvernig tiltölulega sakleysisleg mótmælaalda gegn stjórnvöldum, sprakk út í allsherjar styrjöld á ógnarhraða. Langvarandi stríðið hefur kippt fótunum undan milljónum Sýrlendinga, sem neyðst hafa til að flýja heimkynni sín, fjölskyldu og vini og halda út í óvissuna í leit að skjóli og nýjum heimkynnum.

Guðrún Margrét er mannfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur undanfarin ár tekið þátt í fjölmiðlaumræðu um málefni Miðausturlanda, þ.m.t. átökunum í Sýrlandi, Írak og Jemen.

Vísindaportið hefst kl. 12:10 á kaffistofu Háskólaseturs og eru allir velkomnir.

DEILA