Skíðavika og tónlistarveisla

Skíðavikan má með nokkrum sanni segja að sé  bæjarhátíð Ísfirðinga. Hún varð það löngu áður en hugtakið sjálft, bæjarhátíð,  varð til. Með bættum samgöngum hefur hún hin síðari ár orðið bæjarhátíð norðanverðra Vestfjarða. Nú hillir undir að íbúar á sunnanverðum fjörðunum fái notið gestrisni íbúanna í norðri að vetri til án þess að þurfa að keyra mörg hundruð kílómetra. Þökk sé væntanlegum göngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og vonandi heilsársvegi um Dynjandisheiði.

Skíðavikan hefur í áranna rás þróast með mannlífinu sjálfu. Framan af var hún nokkurs konar ættarmót þar sem brottfluttir flykktust vestur og nutu útiveru og skemmtanahalds með þeim sem aldrei fóru suður. Góður dagur á fjöllum laðar fram það besta í hverjum manni og gerir honum kleift að halda út og njóta menningar- og næturlífshlaðborðs Skíðavikunnar hverju sinni.

Með tilkomu Rokkhátíðar alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, breyttist yfirbragð Skíðavikunnar mikið. Til hátíðarinnar streyma nú þúsundir til þess að njóta tónlistar. Nú er Skíðavikan því orðin iðandi og fjölbreyttur mannlífspottur sem á sér engan líka. Líkt og Skíðavikan er tónlistarhátíðin afrakstur bjartsýni og ósérhlífni fárra frumherja sem tókst að  virkja samtakamátt samfélagsins.

Rokkhátíðin hefur, þrátt fyrir ungan aldur, tekið nokkrum breytingum í áranna rás og er það vel. Á fyrstu árunum tókst mjög vel til að höfða til fjöldans þ.e. ekki einungis yngra fólksins og mátti sjá þess merki á aldurssamsetningu áhorfenda. Svo virðist sem það hafi breyst hin seinni ár. Hvort það er meðvituð ákvörðun skal ósagt látið. Trúlega þó einungis hægfara þróun sem í sjálfu sér þarf ekki að vera slæm. Heyrst hefur að miðaldra áhugamenn um tónlistarsögu Ísafjarðar sakna þess þó að ekki hafi verið rifjuð upp tónlist hinna goðsagnakenndu hljómsveita Náðar og Ýrar með eftirlifandi áhöfnum sveitanna, svo nöldrað sé yfir einhverju er tengist þessari stórkostlegu tónlistarhátíð.

Tilvera Skíðavikunnar er engin tilviljun. Hún fer jú fram í vöggu skíðaíþróttarinnar á Íslandi. Þar sem sú íþrótt hefur alla tíð verið almenningsíþrótt. Aðstæður til ástundun hennar eru góðar frá náttúrunnar hendi en með áðurnefndum samtakamætti og góðum stuðningi bæjarfélagins hverju sinni hefur tekist að skipuleggja skíðasvæði í fremstu röð þó ávallt megi gera betur. Þar má aldrei sofna á verðinum.

Skíðaíþróttin á Ísafirði hefur alið af sér margan afreksmanninn. Fjöldi ólympíufara er besta dæmið. Það þarf ekkert að rekja það frekar. Talandi um glæsta sögu. Hvar sjást hennar merki í bæjarfélaginu? Hvar er hún skráð? Ferðamaður sem stendur á Silfurtorgi á að sjá merki um þessa glæstu sögu. Ennþá eru til staðar frumherjar íþróttarinnar. Girðum okkur nú í brók og gerum sögunni sómasamlega skil með aðstoð þeirra bæði með áþreifanlegum  hætti.

Gleðilega páska.

-Stakkur

DEILA