Vefsjá með ljósleiðarastrengjum Snerpu

Menn frá Snerpu að plægja niður ljósleiðara á Hvilftarströnd í Önundarfirði.

Snerpa hefur undanfarið ár unnið að gerð vefsjár þar sem má sjá nákvæmar upplýsingar um legu ljósleiðara Snerpu á Ísafirði. Vefsjáin er unnin til að gera sem gleggsta grein fyrir legu jarðstrengja, en þeir eru verndaðir samkvæmt fjarskiptalögum og er verktökum og öðrum ávallt óheimilt að gera jarðrask án þess að afla fyrst upplýsinga um legu þeirra og að hafa samráð við eiganda viðkomandi jarðstrengs. Var nauðsynlegt að fara í þessa vinnu vegna mikillar stækkunar sem hefur orðið undanfarið en ljósleiðarakerfi Snerpu stækkaði um 50% á árinu 2017 en nú er heildarvegalengd jarðstrengja rúmir 45 km. og eru þá ótaldir þeir hlutar sem eru leigðir af öðrum fjarskiptafélögum eða hafa verið lagðir t.d. innanhúss.

Áfram verður unnið að stækkun kerfisins árið 2018 og er hönnunarvinna hafin.

Landupplýsingakerfið á bak við vefsjána er frá Loftmyndum og eru upplýsingar úr því jafnframt tiltækar hjá öðrum sem nota sama kerfi og öfugt, t.d. eru einnig upplýsingar um háspennustrengi og hitaveitulagnir Orkubús Vestfjarða aðgengilegar á vefsjá Snerpu.

DEILA