Þroskahjálp ekki með í fjölbýlishúsinu

Búið er að teikna húsið og svona lítur það út.

Húsbyggingasjóður Þroskahjálpar telur ekki forsendur fyrir sjóðinn að taka þátt í byggingu fjölbýlishúss á Ísafirði. Stjórn sjóðsins fundaði í síðustu viku og komst að þessari niðurstöðu. Ísafjarðarbær hefur síðustu misseri undirbúið byggingu 13 íbúða fjölbýlishúss við Sindragötu 4a. Bærinn stefndi að því að fimm íbúðir yrðu í eigu Þroskahjálpar og hugsaðar fyrir fólk með fötlun. Sex íbúðir yrðu fjármagnaðar með svokölluðum stofnframlögum Íbúðalánasjóðs og tvær íbúðir seldar á frjálsum markaði.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að ákvörðun Þroskahjálpar hafi komið sér verulega á óvart. „Við skiljum ekki afhverju þau vilja ekki vera með. Í bréfi framkvæmdastjóra Þroskahjálpar segir að húsið falli ekki að þeirra hugmyndafræði án þess að það sé skýrt nánar. Það hefur verið unnið að byggingunni eftir þeirra pólisíu frá upphafi,“ segir Gísli Halldór.

Hann segir ákvörðun Þroskahjálpar ekki vera neitt rothögg fyrir húsbyggingaáformin. „Þessar íbúðir gætu bæst við stofnframlagaíbúðirnar og svo má líka velta fyrir sér og kanna hvort það er grundvöllur fyrir að selja þessar íbúðir á frjálsum markaði.“

Íbúðir sem eru byggðar með stofnframlögum Íbúðalánasjóðs eru leiguíbúðir hugsaðar fyrir eigna- og tekjuminna fólk.

DEILA