Þröng staða að keppa við stóru fyrirtækin

Áform fyrirtækja um fiskeldi í Seyðisfirði, Mjóafirði, Norðfjarðarflóa, Önundarfirði, Jökulfjörðum og Eyjafirði lenda líklega á byrjunarreit ef frumvarpsdrög um útboðskerfi á fiskeldissvæðum verða samþykkt óbreytt. Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, í samtali við fréttastofu RÚV.

Drög að umfangsmiklum breytingum á lögum fiskeldi voru kynnt í síðustu viku. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að útboðskerfi fiskeldisleyfa verði komið á. Útboðskerfið myndi hins vegar ekki gilda um fjölda umsókna sem þegar eru komnar til Matvælastofnunar. Ef firðirnir hafa verið burðarþolsmetnir halda umsóknirnar velli, annars ekki.

Einar nefnir sem dæmi að fyrirtækið ÍS-47 er með leyfi fyrir eldi á og regnbogasilungi í Önundarfirði. „Ef þeir vildu skipta yfir í laxeldisleyfi sem er ekkert ólíklegt, þá þyrftu þeir væntanlega að fara í þessi útboð. Það er alveg ljóst að fyrir lítil fyrirtæki þá er það þröng staða að keppa við kannski öflugri fyrirtæki sem vildu hasla sér völl í laxeldi á þessum firði ef til kæmi. Við viljum auðvitað stuðla að því að það verði ekki þetta kapphlaup um leyfin sem geti gefið ýkta mynd um raunveruleg áform en ég tel það að minnsta kosti skynsamlegt að menn skoða aðstæðurnar á hverju svæði fyrir sig og taki þá ákvarðanir á grundvelli þess,“ segir Einar.

Arnarlax hf. á Bíldudal hefur tilkynnt um eldisáform og unnið að gerð matsáætlunar á tveimur svæðum sem ekki hafa verið burðarþolsmetin, í Jökulfjörðum og í Eyjafirði. Einar segir segir ljóst að þau eldissvæði fari í útboð verði lögin samþykkt og áform fyrirtækisins því á byrjunarreit.

DEILA