Styttist í afhendingu á nýju raðhúsi á Bíldudal

Húsasmíðameistarar Akso-Haus í Eistlandi eru byrjaðir undirbúning að forsmíði einingahússins sem Íslenska kalkþörungafélagið lætur reisa við Tjarnarbraut á Bíldudal í vor. Síðustu ár hefur verið fádæma viðsnúningur á íbúaþróun og atvinnumálum á Bíldudal, fyrst með Kalkþörungafélaginu og síðar fiskeldinu og mikil vöntun á íbúðarhúsnæði. Um er að ræða 435 fm tveggja hæða raðhús með átta smáíbúðum sem Atlantsskip, umboðsaðili Akso-Haus á Íslandi, munu flytja til Bíldudals, reisa við Tjarnarbraut og afhenda Kalkþörungafélaginu fullklárað með gólfefnum, innréttingum, húsgögnum og raftækjum.

Meðfylgjandi mynd sýnir járnabindingar í eina af botnplötum hússins sem koma tilbúnar til landsins eins og annað sem við kemur húsinu. Plöturnar verða steyptar í næstu viku. Verið er að ganga frá pöntunum á gluggum í húsið ásamt klæðningu auk þess sem veggir, þak og millipötur fara í framleiðslu á næstu tveimur til þremur vikum. Að sögn Þorgeirs Margeirssonar, verkfræðingi og tengiliði Kalkþörungafélagsins við framleiðanda verður húsið afhent formlega í maí.

DEILA