Spennan nálgast hámark

Meistaraflokkur Vestra. Mynd: Ágúst Atlason.

Spennan á toppi 1. deildar Íslandsmótsins í körfubolta er með mesta móti og næstu vikurnar mun hitna enn meira í kolunum. Vestri er í öðru sæti deildarinnar með 28 stig og það er stutt á toppinn. Í kvöld leika Vestri og Gnúpverjar í íþróttahúsinu á Torfnesi, en Gnúpverjar eru í sjöunda sæti deildarinnar. Leikurinn hefst að vanda kl. 19.15.

Auk Vestra hafa lið Skallagríms, Breiðabliks og Hamars skorið sig frá öðrum liðum og munar aðeins einum til tveimur sigrum á liðunum fjórum. Fullyrða má að þessi lið muni berjast um deildarmeistaratitilinn á næstu vikum. Með sterkum útisigri á Breiðabliki í síðustu umferð gerði Vestri tilkall til titilsins, því sigurinn tryggði Vestramönnum vinninginn í innbyrðisviðureignum liðanna. Hver einasti leikur sem eftir er hefur mikla þýðingu og ljóst að ekkert þessara fjögurra liða má við því að tapa leik í þessari hörðu baráttu um titilinn eða heimavallarréttinn í úrslitum. Nú ríður á að stuðningsfólk Vestra fjölmenni á leikinn og hvetji strákana áfram og hjálpi þeim að halda heimavíginu ósigruðu og auka möguleikann á titlinum.

DEILA