Sækja um aukið eldi í Skutulsfirði

Sjókvíar Hábrúnar í Skutulsfirði.

Fiskeldisfyrirtækið Hábrún ehf. á Ísfirði áformar að auka eldi á regnbogasilungi á eldissvæði fyrirtækisins í Skutulsfirði. Fyrirtækið er nú þegar með leyfi fyrir framleiðslu á 400 tonnum af þorski og laxfiskum en hefur sótt um að auka framleiðsluna í 650 tonn á ári af regnbogasilungi og 50 tonna ársframleiðslu af þorski.

Þar sem eldið fer yfir 200 tonn þá þarf að tilkynna það til Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og stofnunin kveður úr um hvort eldið þurfi að gangast undir umhverfismat.

Fyrr í vetur úrskurðaði Skipulagsstofnun að stækkun eldis Hábrúnar upp í 1.000 tonna framleiðslu af regnbogasilungi ætti að sæta umhverfismati vegna þess að svæðið væri undir of miklu lífrænu álagi.

Nú hefur umsóknin verið sköluð niður um 300 tonn. Í tilkynningu Hábrúnar til Skipulagsstofnunar er bent á að við eldi á 650 tonnum af regnbogasilungi og 50 tonnum af þorski minnki magn lífræns úrgangs frá því sem er í núverandi leyfi sem heimilar mun meira magn af þorskeldi, en fóðurstuðull regnbogasilungs er mun hagstæðari en fóðurstuðull þorsks. Einnig er bent á að eldissvæðið verði stækkað og eldinu breytt í kynslóðaskipt eldi þar sem eitt svæði fær hvíld eitt ár í senn. Það er því mat fyrirtækisins að eldisstækkunin eigi ekki að vera háð umhverfismati.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tekur undir þetta sjónarmið og í umsögn til Skipulagsstofnunar er ekki gerð athugasemd við áform Hábrúnar um aukið eldi í Skutulsfirði.

DEILA