Leggur til endurskoðun á leigusamningi

Tjöruhúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði.

Á síðasta fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar var lögð fram fyrirspurn Jónasar Þórs Birgissonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, varðandi kostnað Ísafjarðarbæjar vegna Tjöruhússins í Neðstakaupstað. Fyrirspurnin lítur að kostnaði vegna sorphirðu og -förgunar Tjöruhússins annars vegar og vegna reksturs salerna Tjöruhússins hins vegar.

Í skriflegu svari sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar kemur fram að kostnaður bæjarins við sorphirðu og -förgun Tjöruhússins var 410 þúsund krónur á síðasta ári. Samkvæmt leigusamningi Ísafjarðarbæjar og Tjöruhússins ber bærinn kostnað við sorphirðu og -förgun og einnig vegna reksturs á sameiginlegum salernum Ísafjarðarhafna, Byggðasafnsins og Tjöruhússins en þau eru i Eldsmiðjunni í Neðstakaupstað.

Rekstur salernanna kostaði 1,7 milljónir króna í fyrra og millifærður kostnaði af leigutekjum Tjöruhússins vegna reksturs þeirra var 300 þúsund krónur í fyrra og kostnaðurinn því meiri en áætlaðar millifærslur gera ráð fyrir.

Í minnisblaðinu er lagt til að í ljósi þessa verði leigusamningur bæjarins og Tjöruhússins endurskoðaður en samningurinn er uppsegjanlegur frá 1. janúar til 1. apríl ár hvert og rennur út 1.maí 2019.

Um langt árabil hefur einn vinsælasti og nafntogaðasti veitingastaður landsins verið í Tjöruhúsinu.

DEILA