Krefst stjórnsýsluúttektar á Matvælastofnun

Sjókvíar í Tálknafirði.

Landssamband veiðifélaga hefur skrifað Kristjáni Þór Júlíussyni ráðherra bréf þar sem þess er krafist að fram fari stjórnsýsluúttekt á eftirliti Matvælastofnunar með sjókvíaeldi á laxi. Krafan er sett fram vegna frétta af atviki í Tálknafirði í síðustu viku þar sem laxeldisfyrirtækið Arnarlax hf. þurfti að tæma skemmda sjókví af fiski. Í tilkynningu Arnarlax frá því í gær segir að fisku hafi ekki sloppið úr kvínni en hún var tæmd vegna yfirvofandi illviðris. Einnig hefur komið fram að Arnarlax tilkynnti til Matvælastofnunar og Fiskistofu að rifur hafi fundist á eldiskví í Arnarfirði en fyrirtækið segir fiskur hafi ekki sloppið úr kvínni.

Landssambandið gerir athugasemdir við að eftirlitsmaður hafi ekki enn verið sendur á staðinn til að taka út mannvirki og búnað fyrirtækisins.

Einnig gerir Landssambandið alvarlegar athugasemdir við að opinberir eftirlitsaðilar birti ekki upplýsingar um málið sem „virðist hafa átt að fara leynt,“ eins og það er orðað í tilkynningu.

Landssambandið krefur ráðherra svara um hvernig ráðuneytið ætlar að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Þá fer Landssambandið fram á að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið áminni Matvælastofnun og Fiskistofu um að miðla upplýsingum um óhöpp í sjókvíaeldi sem erindi eiga við hagsmunaaðila og almenning, líkt og á sér stað við aðra mengandi stóriðju sem náttúru landsins getur stafað hætta af.

DEILA