Hvessir þegar líður á morguninn

Vindaspá kl. 11 í dag.

Hvessir þegar líður á morguninn

Með morgninum fer kröpp og djúp lægð hratt til norðurs fyrir vestan land. Úrkomusvæði lægðarinnar er gengið inn á Suðvesturland og farið að hvessa verulega, en búist er við suðaustanstormi eða -roki víða á landinu er líður að hádegi og jafn vel ofsaveðri vestan til. Rignir talsvert á sunnanverðu landinu í dag, úrhelli að kalla suðaustan til. Slydda norðvestan til, en úrkomulítið á Norðausturlandi. Vakin er athygli á gulum og appelsínugulum viðvörunum, sem eru í gildi.

Vindur fer vaxandi á Vestfjörðum með morginunum og veðurhæðin nær hámarki um hádegið og má búast við suðaustan stormi. Fyrst snjóar en eftir hádegi verður slydda eða rigning.

Um hádegi er lægðin er að mestu farin hjá og lægir þá ört og rofar til á vestanverðu landinu, þó áfram verði stormur og sums staðar úrkomusamt fyrir austan fram á nótt. Illviðrinu fylgja hlýindi þ.a. snjórinn heldur áfram að bráðna, en þá er vissara er að halda niðurföllum og ræsum opnum.

Á morgun er veðrið gegnið niður, en í staðinn komin stíf suðvestanátt með éljum og mun lægri hitatölum. Léttir þó smám saman til fyrir norðan og austan. Á föstudag er síðan von á enn einni óveðurslægð, þó að það veður ná ekki sömu hæðum og í dag.

DEILA