Góður gangur í sjöundu viku ársins

Í síðustu viku voru grafnir 66,1 m í Dýrafjarðargöngum. Heildarlengd ganganna í lok viku 7 var 1.253,1 m sem er 23,6% af heildarlengd ganganna.

Grafið var í gegnum 20 m breiðan berggang sem lá nokkuð þvert á göngin. Beggja vegna við bergganginn var nokkuð brotið basalt. Sem fyrr var nokkuð af vatni að leka í göngin á afmörkuðum stöðum.

Allt efni úr göngunum var haugsett til síðari nota í vegagerð þegar byrjað verður á efri lögum vegarins. Ekki var unnið við fyllingar í vegagerð í vikunni þar sem haugsett efni til nota í neðri lög vegarins er nánast uppurið.

Öll vinna stöðvaðist á miðvikudeginum í 12 klst. vegna veðurs.

Á myndinni er verið að raða hvellettum á borholur áður en þeim verður komið fyrir inn í holunni sjálfri ásamt sprengiefni sem dælt er i hverja holu.

DEILA