Fögnuðu 20 ára afmæli Sólborgar

Fjöldi fólks mætti í afmælið.

Opið hús var á leikskólanum Sólborg á Ísafirði á fimmtudaginn fyrir viku þegar 20 ára afmæli skólans var fagnað. Af því tilefni var sýning á verkum leikskólabarna og eru verkin tengd þemastarfi skólans í vetur, sem er umhverfið.

Mikill fjöldi gesta mætti í afmælið og þáði veitingar. Foreldrafélag leikskólans gaf öllum deildum skólans dagljósalampa sem lið í aukinni meðvitund um mikilvægi góðrar almennrar heilsu, sérstaklega yfir myrkustu vetrarmánuðina og til að styrkja enn frekar það starf skólans að vera heilsueflandi leikskóli. Helga Jóhannsdóttir leikskólastjóri vill fyrir hönd starfsmanna skólans koma á framfæri þakklæti til foreldra fyrir fallega gjöf og mikinn hlýhug í garð skólans. „Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif þessi ljós munu hafa á vellíðan fyrir alla sem er lykil atriði í starfi í leikskólum,“ segir Helga.

Börn á Sólborg syngja fyrir íbúa á Eyri.

Dagur leikskólans  var haldinn hátíðlegur um allt land á þriðjudaginn til að vekja athygli almennings á því mikilvæga starfi sem fram fer í leikskólum. Þar sem leikskólinn á Sólborg var búinn fá til sín gesti stuttu áður, þá var ákveðið að nemendur skólans skyldu gleðja bæjarbúa með söng.
Nemendur á eldri deildunum á Sólborg á Torfnesi fóru á Hlíf og sungu fyrir íbúa. Áður hafði hópur farið á hjúkrunarheimilið Eyri að syngja fyrir íbúa þar. Nemendur á 5 ára deildinni Tanga fóru vítt og breitt um bæinn og sungu í  hinum ýmsu fyrirtækjum á eyrinni og vöktu mikla lukku.

DEILA