Ekkert ferðaveður um helgina

Vindaspáin annað kvöld.

Dagurinn byrjar með suðvestanstórhríð um norðvestanvert landið og því lélegum ferðaskilyrðum á þeim slóðum. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að suðvestanlands halda élin áfram, en um hádegi dregur vel úr bæði vindi og úrkomu og má búast við skaplegu veðri á öllu landinu fram á kvöld þegar kröpp lægð kemur upp að landinu og gengur í austan storm með snjókomu syðst. Það lítur út fyrir að þessi lægð muni hringsnúast um landið um helgina og henni fylgir slæmt vetrarveður í öllum landshlutum.

Á morgun stefnir í storm eða jafnvel rok með snjókomu og skafrenningi um allt land og því ekkert ferðaveður í kortunum. Ítarlegri upplýsingar um hvern landshluta má finna í gulum viðvörunum. Á sunnudag er útlit fyrir að mestu áhrifin verði um landið sunnanvert með vestan stormi og snjókomu.

Fólk er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám þar sem lítil breyting á staðsetningu lægðarinnar getur skipt miklu máli í staðbundnum áhrifum.

DEILA