Efast um afsal á virkjunarréttindum um alla framtíð

Reiðhjallavirkjun.

Bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar hefur falið lögmanni bæjarins að kanna lögmæti afsals virkjunarréttinda Bolungarvíkurkaupstaðar til Orkubús Vestfjarða. Við stofnun Orkubúsins árið 1978 lögðu sveitarfélög á Vestfjörðum öll virkjunarréttindi sín, bæði þekkt og óþekkt, inn sem eignarhlut í hinu nýstofnaða Orkubú. Þegar ríkið keypti Orkubúið af sveitarfélögunum upp úr aldamótum færðust virkjunarréttindin til ríkisins. Í bókun bæjarstjórnar segir að þetta sé stórt hagsmunamál fyrir sveitarfélagið og það hljóti að vera „rétt að efast um að hægt sé að afsala slíkum réttindum íbúa sveitarfélagsins um alla framtíð í löndum bæjarins.“

Tilefni ákvörðunar bæjarstjórnar að fela lögmanni að kanna lögmæti afsalsins er bréf Elíasar Jónatanssonar orkubússtjóra um þinglýsingu Reiðhjallavirkjunar í Syðridal. Í bréfinu kemur fram að samkvæmt veðbókavottorðum er Bolungarvíkurkaupstaður eigandi virkjunarinnar. Þetta segir Elías ekki rétt. Hann bendir á að frumheimild þeirrar skráningar sé frá árinu 1936 en árið 1963 hafi RARIK keypt bæði land undir Reiðhjallavirkjun og öll mannvirki virkjunarinnar. Elías bendir einnig á afsal virkjunarréttinda Bolungaríkurkaupstaðar til Orkubúsins árið 1978 og að sama ár hafi ríkið framselt öllum eigum RARIK sem tengjast Reiðhjallavirkjun til Orkubúsins og að Orkubúið hafi alla tíð greitt öll opinber gjöld af virkjuninni.

Í bréfinu er óskað eftir því að bæjarstjórn Bolungarvíkur samþykki leiðréttingarbeiðni á rangri eignaskráningu Reiðhjallavirkjunar.

DEILA