Efast ekki um að Orkubúið eigi vatnsréttindin

„Orkubúið getur ekki annað en brugðist við þegar menn ætla að selja eignir sem komust í eigu Orkubúsins fyrir löngu,“ segir Elías Jónatansson orkubússtjóri um samning Ísafjarðarbæjar við AB-Fasteignir efh. um vatnsréttindi í Úlfsá í Dagverðardal. Elías segir það liggja alveg skýrt fyrir að Ísafjarðarkaupstaður þáverandi hafi við stofnun Orkubúsins lagt inn öll vatnsréttindi í eignarlandi sveitarfélagsins og fengið á móti stofnfé í fyrirtækinu.

„Nú erum við komin með tvo samninga, báða undirritaða af bæjarstjóra. Annar er frá 1977 og hinn frá 2018 og í báðum samningum er bærinn að selja eða leigja sömu réttindin. Það er ekki í vafi í mínum huga hvor samningurinn er rétthærri,“ segir Elías.

 

Elías Jónatansson.

Elías leggur áherslu á að það er ekki Orkubúið sem er að hefja þetta mál. „En við getum ekki látið kyrrt liggja ef menn eru að selja eignir sem Orkubúið eignaðist fyrir löngu.“

Í samtali við bb.is í gær tók Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sem dæmi að þessar eignir séu ekki í ársreikningum Orkubúsins. „Ég get spurt á móti, eru þær í ársreikningi Ísafjarðarbæjar? Þetta eru hártoganir að mínu mati þegar það liggja fyrir undirritaðir samningar þar sem Ísafjarðarkaupstaður afhendir Orkubúinu þessi réttindi,“ segir Elías.

Gísli Halldór sagði í sama viðtali að bærinn er tilbúinn í dómsmál vegna málsins. Elías segir of snemmt að tala um dómsmál. „Nú erum við að bíða eftir svari frá Ísafjarðarbæ vegna fyrirspurnar frá lögmanni okkar og næsta skref er að fara yfir það,“ segir Elías.

DEILA