Byggja líkamsræktarstöð á Torfnesi og Sundhöllin sett á ís

Ísafjarðarbær stefnir á að opna nýja líkamsræktarstöð í íþróttahúsinu á Torfnesi eftir eitt ár. Í janúar var gengið frá kaupum bæjarins á Stúdíó Dan ehf. og bærinn gerði einnig leigusamning til eins árs við eiganda húsnæðis Stúdíó Dan. Nýja líkamsræktarstöðin verður reist á þaki anddyris íþróttahússins. „Þetta er í hönnunarferli núna með arkitekt íþróttahússins og menn eru að kasta á milli hugmyndum,“ segir Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri. Aðspurður um kostnað við bygginguna segir Gísli Halldór að það sé ekki vitað að svo stöddu. „Fyrstu hugmyndir þar sem einnig var gert ráð fyrir tveggja hæða viðbyggingu reyndust of dýrar en núna er verið að skoða ódýrari útfærslur. En þó við veljum ódýra útgáfu þá er ljóst að 200 milljónir eru fljótar að fara,“ segir hann.

Þegar umræður um endurbætur á Sundhöll Ísafjarðar stóðu sem hæst fyrr á kjörtímabilinu var oft rætt um möguleika á að hafa líkamsræktarstöð í Sundhöllinni. Aðspurður hvort að nú sé horft í ríkari mæli til Torfness og hugmyndir um endurbætur á Sundhöllinni séu komnar á ís segir Gísli Halldór að Sundhöllinni verði ýtt til hliðar um sinn. „En við ætlum að gera þessa íbúakönnun um málefni Sundhallarinnar. Ef það kemur fram mikill vilji að fara í endurbætur á Sundhöllinni þá gætu menn hafist þar handa eftir nokkur ár, en þetta er mjög dýr pakki að minnsta kosti 600 milljónir króna. En fólk hér í bæ telur önnur verkefni brýnni á næstu þremur árum,“ segir Gísli Halldór. Þau verkefni sem hann vísar til er áðurnefnd líkamsræktarstöð, knattspyrnuhús á Torfnesi, malbikunarframkvæmdir og hafnarframkvæmdir.

DEILA