Bærinn fluttur úr Norðurtanganum

Norðurtangahúsið.

Norðurtanginn ehf. hefur rift leigusamningi við Ísafjarðarbæ og allir munir í eigu stofnana bæjarins hafa verið fjarlægðir úr Norðurtanganum. Ísafjarðarbær og Norðurtanginn gerðu með sér 10 ára leigusamning sumarið 2016 um að Norðurtanginn hýsti geymslur Héraðsskjalasafns Ísafjarðar og einnig geymslur fyrir muni Byggðasafns Vestfjarða. Síðustu misseri hafa staðið yfir deilur milli bæjarins og Norðurtangans vegna málsins.

„Þeir eru að rifta leigusamningi sem við teljum að sé ekki í gildi. Við teljum að endurskoðaður leigusamningur sem var samþykktur í bæjarráði í fyrra og Norðurtanginn var búinn að samþykkja sé í gildi. Í þeim samningi erum við að leigja helming húsnæðisins, en við þurftum ekki eins marga fermetra eftir að Byggðasafnið sagði upp sínum hluta,“ segir Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Í húsinu voru fyrst og fremst skjöl frá skjalasafninu og Gísli Halldór segir að þeim hafi verið komið fyrir í Hafnarhúsinu á Ísafirði.

Norðurtanginn hefur gert kröfu á Ísafjarðarbæ um leigugreiðslur samkvæmt fyrri leigusamningi sem Ísafjarðarbær fellst ekki á að greiða þar sem bærinn telur að sá samningur hafi ekki verið í gildi.

DEILA