Ákvörðunartöku um flugvöllinn verði hraðað sem kostur er

Stjórnvöld þurfa að gera upp sig sinn varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar eins skjótt og kostur er. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps sem Jón Gunnarsson þáverandi samgönguráðherra skipaði. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra í gær.

Tillögur starfshópsins eru að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð svo fljótt sem verða má með nauðsynlegum rannsóknum er varða flug á svæðinu áður en ákvörðun yrði tekin um að byggja nýjan flugvöll þar. Einnig yrðu tryggðar greiðar samgöngur milli borgarinnar og hins mögulega nýja flugvallar. Þá leggur hópurinn áherslu á að tryggja verði rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri og að brautir verði ekki styttar eða þeim lokað fyrr en nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar og bent er á að ákvarðanatöku vegna málsins verði  hraðað sem kostur er.

Hópnum var falið það hlutverk að leiða viðræður samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila til að finna viðunandi lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Skyldi hópurinn leita lausna sem geti sætt ólík sjónarmið um hlutverk flugvallarins í dag og til framtíðar.

DEILA