Umferðin eykst hröðum skrefum

Í fyrra jókst umferð um tæplega 11% en hefur að jafnaði aukist um tæp 8% á ári frá 2012. Vegagerðin hefur birt yfirlit yfir umferð á árinu 2017, sem byggt er á umferðartölum frá sextán stöðum á landinu. Í fyrra jókst umferð um tæp 11%, og er það næstmest aukning frá því að þessi mælingaraðferð var tekin upp. Hún er þó nokkru minni en árið 2016 þegar umferð jókst um rúm 13%. Ef litið er til landssvæða þá jókst umferð mest um Suðurland, um tæp 16%, en minnst um Austurland, um tæp 9%. Af einstökum teljurum var umferðaraukningin mest um hringveginn á Mýrdalssandi, eða rúm 24%.

Í desember jókst umferð um rúm 9%, sem er nokkru minni aukning en árið 2016 þegar hún jókst um 21% frá fyrra ári. Athygli vekur að þótt umferð hafi aukist mest um Mýrdalssand í desember, eða um tæp 22%, var hún ekki nálægt því sem mældist árið 2016. Þá jókst umferð um 89% frá sama mánuði 2015.

DEILA