Tugmilljóna gat í rekstri Byggðasafnsins

„Bæjarráð Bolungarvíkur hefur áhyggjur af fjárhagslegri stöðu Byggðasafns Vestfjarða og hefur óskað eftir upplýsingum um hvernig samlagið hyggst ná fjárhagslegum stöðuleika á næstu árum. Þetta kemur fram í ályktun bæjarráðs sem hefur falið bæjarstjóra að kalla eftir upplýsingum frá stjórn Byggðarsafnsins um endurskipulagningu á fjármálum þess, bæði til skemmri og lengri tíma litið.

Byggðasafn Vestfjarða er samlag Bolungarvíkur, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps. Í stjórn safnsins eru Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar sem jafnframt er formaður stjórnar.

Gísli Halldór segir að skuld safnsins við Ísafjarðarbæ vegna hallarekstur síðustu ára (20014-16) nemi tæpum 40 milljónum kr. „Að auki eru lífeyrisskuldbindingar Byggðasafnsins hjá Ísafjarðarbæ en eiga með réttu að vera hjá Byggðasafninu og þær nema um 40 milljónum króna,“ segir Gísli Halldór.

Hann segir að brugðist hafi verið við vandanum á síðasta ári og farið í hagræðingaraðgerðir. „Við vonumst til að síðasta ár verði um núllið og það er gert ráð fyrir fimm milljóna króna afgangi á þessu ári og þá verður byrjað að greiða niður þetta tap.“

DEILA