Þétt dagskrá á fyrstu leikhelgi eftir framkvæmdir

Fyrstu íþróttakappleikirnir á nýju gólfi í íþróttahúsinu á Torfnesi fóru fram laugardaginn 20. janúar. Þá tók Vestri á móti HK B í 1. deild karla og kvenna í blaki og síðan fór fram körfuboltaleikur strax á eftir þar sem Vestri tók á móti ÍA.

Karlarnir riðu á vaðið og áttu hörkuleik á móti ungu og spræku liði HK B. Vestri tapaði fyrstu hrinunni naumlega 23-25, en síðan hrukku Vestra strákarnir í gang og sigruðu þrjár næstu hrinurnar og leikinn þar með 3-1.

Kvennaleikurinn var hörkuleikur þar sem Vestri tapaði tveimur fyrstu hrinunum, en vann tvær þær næstu. Oddahrinan var æsispennandi en HK náði að stela sigrinum að lokum 15-13 og unnu þar með leikinn 3-2.

Liðin í 2. flokki hjá sömu félögum spiluðu svo á sunnudeginum. HK fór með sigur af hólmi í báðum leikjunum, 3-1 hjá strákunum og 3-0 hjá stelpunum.

Tveir sigra í körfunni

Fyrri leikur Vestra og ÍA í 1. deild Íslandsmótsins í körfubolta var leikinn á laugardagskvöld. Skagamenn hafa ekki unnið leik í vetur en lið Vestra er í baráttu um umspilssæti og ósigraðir á heimavelli.

Heimamenn tóku snemma forystu í fyrri leiknum og leiddu 27 – 13 eftir fyrsta leikfjórðung og leikurinn endaði með öruggum 96 – 71 sigri Vestra.

Liðin mættust aftur á sunnudag og var jafnara með liðunum en í fyrri leiknum. Undir lok 3. leikhluta náðu heimamenn í Vestra 6 stiga forskoti sem Skagamennirnir náðu ekki að aldrei að minnka niður í minna en þriggja stiga mun þrátt fyrir að hafa gert harða hríð að Vestramönnum. Síðustu þrjár mínútur leiksins pressuðu heimamenn um allan völl og lönduðu að lokum 13 stiga sigri, 93-80.

DEILA